Bernie Sanders, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins bandaríska, hefur sigrað netkosningar Time Magazine um manneskju ársins 2015.

Sanders hlaut rúmlega 10% atkvæða, og var því langt á undan öðru sætinu sem var skipað af Malala Yousafzai, en kvenréttindaskörungurinn ungi hlaut 5,2% atkvæða. Þriðja sætið skipaði svo Frans Páfi, en hann var maður ársins í fyrra hjá Time.

Athygli vekur hversu langt á undan hinum mótframbjóðendum sínum Sanders varð í lokin. Repúblikaninn Donald Trump hlaut 1,8% atkvæða meðan Hillary Clinton Demókrati hlaut 1,4% atkvæða. Þá hlaut Barack Obama 1,8% atkvæða.