Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders staðfestir að hann myndi þiggja ráðherrastól í ríkisstjórn Bandaríkjanna undir Joe Biden nýkjörnum forseta landsins.

Hinn 79 ára gamli Sanders hefur boðið sig fram í forkosningum Demókrata fyrir forsetakosningarnar bæði núna og árið 2016, en hann er í miklum metum hjá kjósendum lengst til vinstri í bandarískum stjórnmálum.

Hann hefur þó ekki verið þingmaður flokksins þó hann hafi setið í þingflokki hans, heldur setið sem sjálfstæður frambjóðandi í öðrum tveggja sæta heimaríkis síns, Vermont í Nýja Englandi.

Hafa ýmsir forystumenn hins svokallaða framsóknararms Demókrataflokksins nefnt Sanders sem mögulegan ráðherra verkalýðsmála í stjórn Biden sem hann er nú í óða önn að skipuleggja að taki við á nýju ári þegar kjörtímabili Donald Trump lýkur.

Sanders segir að ef hann gæti nýtt embættið til að styðja við bakið á verkafólki þá myndi hann þiggja það, hvort sem það væri áfram í Öldungardeildinni, eða í stjórn Biden.

„Það sem er rétt er að ég vil gera hvað ég get til að vernda vinnandi fjölskyldur í landinu sem eru undir miklu álagi á þessum tíma,“ hefur Fox News eftir Sanders.

Umfjöllun Fox News.