*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Innlent 26. júní 2018 11:32

„Berskjölduð“ ef Brim fengi upplýsingar

Vinnslustöðin hefur sent Samkeppniseftirlitinu erindi vegna spurninga Guðmundar Kristjánssonar í stjórn félagsins.

Höskuldur Marselíusarson
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson er framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar segir Guðmund Kristjánsson í Brim reyna að nýta stjórnarsetu til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja sinna á erlendum mörkuðum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær samþykkti aukahluthafafundur Vinnslustöðvarinnar að lánveitingar félagsins til starfsmanna sem jafnframt voru hluthafar yrðu rannsökuð að undirlagi Guðmundar.

Á móti lét meirihlutinn í stjórninni þar sem lengi hefur verið átök milli Guðmundar sem á um 30% eignarhlut og annarra samþykkja að leitast eftir rannsókn innan Landsbankans á kaupum Guðmundar á Brim út úr skuldugu félagi á 205 milljónir króna árið 2010.

Gætu stundað undirboð

Segir Sigurgeir Brynjar að með þeim upplýsingum sem Guðmundur hafi krafist, en meirihlutinn neitað honum um, gætu fyrirtæki Guðmundar stundað undirboð á erlendum mörkuðum.

Vísar hann þar til að mynda á Japansmarkað og loðnuhrognamarkaði, en Viðskiptablaðið hefur undir höndunum spurningar frá Runólfi Guðmundssyni fjármálastjóra Brims á hluthafafundi Vinnslustöðvarinnar um verðmat birgða félagsins sundurliðað eftir tegundum, bæði eftir magni og verðmæti.

„Guðmundur hefur setið hérna í stjórn Vinnslustöðvarinnar og viljað fara ofan í reksturinn í smáatriðum sem við höfum hafnað á grundvelli samkeppnissjónarmiða,“ segir Sigurgeir Brynjar en félagið hefur sent Samkeppnisstofnun erindi vegna málsins.

„Nú bíðum við eftir svari frá Samkeppniseftirlitinu, sem við vonumst eftir að komi fljótlega. Ef það svar er okkur mótdrægt þá erum við bara berskjölduð. Þá er það þannig að Guðmundur Kristjánsson eða hver sem er fyrir hans hönd sem kemur inn í hans sæti, getur komið og spurt um allar okkar upplýsingar og öll okkar viðskipti.“

Vill upplýsingar um verð, magn og viðskiptavini

Segir Sigurgeir Brynjar að Guðmundur hafi krafist þess að fá upplýsingar um verð, viðskiptavini, magn og fleira og sagt neitun meirihlutans á að veita sér upplýsingarnar ólöglegar. „Hann hefur sagt að hann sé einfaldlega stjórnarmaður og hafi rétt á öllum upplýsingum,“ segir Sigurgeir Brynjar og segir að þarna stangist lög um stjórnarmenn í hlutafélögum og samkeppnislög á.

„Það er auðvitað þannig að lög um stjórnarmenn segja að þeir geti spurst fyrir um það sem þeim sýnist. Því höfum við sent erindi til Samkeppnisstofnunar þar sem við höfum óskað eftir skilningi stofnunarinnar á því hversu langt megi ganga í þessu. Vissulega er það þó þannig að samkeppnislögin hér á Íslandi snúa að neytendavernd en samkeppnissjónarmið hljóta auðvitað að eiga við í samkeppni.

Við viljum að minnsta kosti ekki hafa það þannig að maður setjist í stjórn hérna sem er samkeppnisaðili okkar, þó það sé á erlendum mörkuðum, sem vilji gramsa í öllum okkar upplýsingum og viðskiptaþekkingu, hirða það sem honum hentar og taka það yfir í sitt fyrirtæki og nýta það þar.“

Sigurgeir Brynjar tekur dæmi af öðrum vettvangi máli sínu til stuðnings. „Við getum ímyndað okkur hvernig það myndi ganga ef Skúli í Wow air keypti 30% í Icelandair og settist þar í stjórn og byrjaði síðan að spyrja spurninga sem vörðuðu samkeppnissjónarmið.“