„Það er nýtt fyrir mér og mjög spennandi áskorun að fá að vinna náið með stjórn félags að hlutafjárútboðum og annarri fjármögnun. Hjá Medís var ég yfir söluteyminu en núna erum við einnig með framleiðslu og þróun undir," segir Jónína Guðmundsdóttir sem tekið hefur við sem forstjóri Coripharma eftir að hafa starfað hjá Medís, dótturfélagi Teva og áður Actavis, í 16 ár.

„Við vorum að þróa okkar fyrsta lyf og senda það til heilbrigðisyfirvalda til samþykktar sem getur tekið alveg upp undir tvö ár. Auk þess að þróa fleiri samheitalyf, sem flest miða að því að vera til staðar þegar einkaleyfi falla í Evrópu, þá erum við með tilbúna verksmiðju og með öll tilskilin leyfi svo við tökum einnig að okkur framleiðsluverkefni fyrir aðra.

Á sínum tíma byggðist lyfjageirinn upp sterkur hér á landi. Við áttuðum okkur á að við værum að framleiða fyrir Íslandsmarkað gríðarlega eftirsótt lyf í Evrópu, undir evrópskum stöðlum, en þá var ekki búið að sameina einkaleyfalöggjöf EES-landanna. Þá voru menn kannski oft að spara eða gleymdu að sækja um einkaleyfi á Íslandi."

Jónína segir markmið Coripharma að taka upp þennan þráð og styrkja áfram lyfjaþróun og framleiðslu á Íslandi.

„Okkur hefur lánast að fá til liðs við okkur fólk sem byggði upp mikla reynslu á þessum tíma. Þótt við séum þannig lagað frumkvöðlafyrirtæki er reynslan mikil og svo er félagið einstaklega eignarríkt og á gríðarlegar fasteignir, nánast heilt horn hérna af Hafnarfirðinum. Eftir að við keyptum þróunareininguna hérna í samtengdu húsi við lyfjaverksmiðjuna af Teva árið 2019, bættum við þar með við okkur yfir 60 starfmönnum, svo við erum í dag 110 í heildina. Þegar mest var umsvifs hjá Actavis hér á landi voru þetta um 850 manns," segir Jónína.

„Ég er þó ekki að segja að við förum þangað, en það er mikilvægt að halda í þekkingu og reynslu í þróunar- og tæknigeirum hér á landi. Það er gríðarlega mikið framleitt af lyfjum og virkum innihaldsefnum í þau á ódýrari svæðum eins og Indlandi og Kína, sem menn eru að sjá hættuna af núna í heimsfaraldrinum. Okkur hefur einnig tekist að halda hærra þjónustustigi svo við höfum verið að sjá í auknum mæli að verið er að flytja framleiðsluna aftur til baka til Evrópu."

Jónína á eina dóttur á 15. ári með manni sínum, Þorsteini Yngvasyni prentsmiði, og einum af eigenda prentun.is. „Við erum á þeim aldri að allt í einu er farinn að vera einhver frítími svo við höfum verið að berjast við að byrja í golfi, en með lélegum árangri þó. Það er þó gott að geta farið út að leika sér svona í góða veðrinu á sumrin, en þess utan njótum við okkur í ferðalögum og sumarbústað."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .