Stærðfræðingar landa bestu störfunum í Bandaríkjunum samkvæmt rannsókn sem CareerCast.com stendur fyrir, en dagblaðið Wall Street Journal greinir frá þessu.

Í rannsókninni voru 200 störf í Bandaríkjunum metin út frá fimm þáttum: umhverfi, tekjum, atvinnuhorfum, líkamlegri áreynslu og stressi. Stærðfræðingar komu best út úr rannsókninni og skógarhöggsmenn verst, en á meðfylgjandi töflu má sjá fimm bestu og verstu störfin.

Miðgildi tekna stærðfræðinga nemur 94 þúsund dollurum á ári, sem samsvarar um 11 milljónum íslenskra króna á ári á núverandi gengi.

Önnur ákjósanleg störf samkvæmt rannsókninni eru sagnfræðingur, hagfræðingur og heimspekingur. Meðal starfa sem komu illa út úr rannsókinni eru slökkviliðsmaður, málari og hjúkrunarfræðingur.