Góð veisla getur farið fyrir lítið ef ekki er vel haldið utan um veislustjórnina. Ábyrgð veislustjóra getur því verið mikil, sérstaklega þegar óreynt fólk mannar árshátíðarnefndina. Margrét Erla Maack hefur ófá ráð fyrir tilvonandi veislustjóra. „Ráðin velta rosalega á því hvers konar veisla það er,“ segir Margrét Erla.

„Í flestum tilvikum ertu að vinna með árshátíðarnefnd sem er að gera þetta í fyrsta skipti. Þá þarftu að vera óhrædd við að segja bara: „Nei, ég hef verið í veislu þar sem þetta var prófað og það gekk ekki.“ Besta ráð sem ég hef gefið í þessu samhengi er að minna fólk á að taka árshátíðarmyndbandið ekki lóðrétt á símann og að það er ekkert skemmtilegt ef enginn heyrir hvað er sagt í því,“ segir Margrét Erla. „Fólk heldur líka að hápunktar eigi að vera mjög seint í prógramminu. Það er til rosalega lítils að fá Ara Eldjárn með uppistand ef allir eru orðnir blindfullir og tala ofan í hann. Það þarf því að raða atriðum þannig að það sem þarf að heyrast sé snemma og það sem þarf ekki endilega að heyrast sé seinna.“

Hún rifjar upp þegar hún veislustýrði í brúðkaupi hjá Bretum. „Þá hafði brúðurin farið í brúðkaup þar sem ræðurnar átu veisluna. Það var hræðilegt. Þau sögðu því hvaða fólk mætti tala lengi: foreldrar og besti vinur þeirra beggja. Svo var haldið ræðumaraþon. Hver ræðumaður hafði eina mínútu til að tala en ef þú fórst yfir mínútuna þurftirðu að taka skot af brennivíni,“ segir Margrét. Þetta hafði ótrúlega góð áhrif, því enginn sagði sömu söguna og allir reyndu að vera skemmtilegir, frekar en að keppast um að fá veislugesti til að gráta. „Besta ráðið er samt að gera ekki of mikið,“ segir Margrét Erla.

Með mann í vinnu vegna kynferðisáreitni

„Ég er með klausu á heimasíðunni minni sem fjallar um kynferðislega áreitni – og það af ástæðu. Ég rukka meira en aðrir veislustjórar því ég þarf að taka með mér manneskju sem ég borga fyrir að passa upp á mig.“ segir Margrét Erla. „Í svona þriðjungi tilvika ryðst einhver inn í búningsherbergið mitt. Þegar ég er bæði að veislustýra og dj-a er mjög oft þannig að dónakallinn sem er búinn að fæla allar hinar konurnar er bara „Hah! Þarna er ein sem er föst og þarf að vera hérna þangað til partýið er búið!“ Alltaf þegar ég er bókuð þá sendi ég svona á undan mér en fæ alltaf svarið „Neinei, svona gerist aldrei í okkar fyrirtæki.“ Ég fæ samt allt öðruvísi viðbrögð núna þegar ég læt mannauðsstjórann vita. Fyrir ári síðan, fyrir #metoo, var svarið bara að dónakallinn væri alltaf svona,“ segir Margrét Erla.

Þetta hefur gert það að verkum að hún hefur neitað að koma fram í veislum hjá fyrirtækjum. „Ég hef líka einu sinni, eftir nokkur svona atvik í röð, þurft að hringja og beila á næsta því sálin mín gat ekki meira. Það er líka svo skrýtið að um leið og ég er komin með stóran mann með skegg með mér, þá er ég látin í friði.“

Nánar er fjallað um málið í Fundir & ráðstefnur, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .