Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og í tilefni þess gaf The Economist út uppfærðan lista yfir þá staði sem best er að starfa sem kona. Þar er Ísland í efsta sæti listans.

Þar er tekið saman gögn um menntunarstig kvenna, þátttöku í atvinnulífinu, fæðingarorlof og fleiri þætti. Norðurlöndin koma til að mynda öll nokkuð vel út úr samanburðinum.

Í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að það sé sérstakt fagnaðarefni hversu mikið sé litið til Íslands sem foyrsturíkis í jafnréttismálum.

„Jafnrétti kynjanna hefur lengi verið einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu enda þykir sýnt að valdefling kvenna og jafnrétti kynjanna eru undirstaða sjálfbærrar þróunar og þátttaka kvenna í friðarferlum stuðlar að langvarandi friði. Jafnrétti er einnig eitt af meginþemum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og lykilforsenda fyrir því að þau náist því án þátttöku kvenna verður ómögulegt að útrýma fátækt og hungri og heilbrigði sjávar og lands verður telft í tvísýnu,“ segir utanríkisráðherra.