*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 13. maí 2021 10:12

Best ef SÍ hleypti hækkunum framhjá

Aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins telur heppilegast að Seðlabankinn myndi horfa fram hjá hækkunum á hrávöru og flutningskostnaði.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, telur að best væri ef Seðlabankinn gæti sleppt verðhækkunum hrávöru og flutningskostnaðar „í gegn án viðbragða“. Óvíst sé hins vegar hvort raunin verði sú. Næsti vaxtaákvörðunarfundur peningastefnunefndar er í næstu viku.

Í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu bendir Ingólfur á að líklegt sé að fyrrgreindar verðhækkanir, sem hafa staðið yfir frá miðju síðasta ári, kostnaður við flutning 40 feta gáms frá Austur-Asíu til Norður-Evrópu hefur til að mynda fimmfaldast á einu ári, muni hafa talsverð áhrif hér á landi og mögulegt að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti vegna áhrifa þeirra á verðbólguvæntingar.

„Væri það slæmt nú þegar þörf er á að stýrivöxtum sé haldið lágum til að örva hagkerfið til vaxtar. Þessar verðhækkanir gætu því leitt til aukinnar verðbólgu, hægari vaxtar kaupmáttar og hærri stýrivaxta. Allt eru það þættir sem munu auka við þá efnahagslegu erfiðleika sem fyrirtæki og heimili í landinu eru nú að glíma við,“ ritar Ingólfur.

Greiningaraðilar erlendis spá því að til skamms tíma muni þessar hækkanir hafa áhrif til hækkunar verðbólgu tímabundið. Búist er við því að áhrifin muni vara út þetta ár og eitthvað inn í það næsta.

„Verðbólgan mælist nú 4,6% hér á landi og hefur hún aukist nokkuð undanfarið ekki síst vegna mikillar verðhækkunar á innfluttum vörum. Skýra verðhækkanir innfluttrar vöru þannig 2,0 prósentustig af núverandi verðbólgu en til samanburðar skýrir húsnæðisliðurinn 0,9 prósentustig. Verðbólgan er meiri hér en í Bandaríkjunum, í Bretlandi og á evru-svæðinu og talsvert yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Best væri ef Seðlabankinn gæti sleppt þessum verðhækkunum hrávara og flutningskostnaðar í gegn án viðbragða en óvíst er hvort sú verði raunin,“ segir Ingólfur.