Íslensku bankarnir þrír eru best fjármögnuðu bankar í Evrópu. Þetta sagði Håkon Fure, greiningaraðili hjá Norska bankanum DNB á morgunfundi Norsk íslenska viðskiptaráðsins á Hilton Hótel Nordica í morgun. Fure segir að samfara almennum bata í efnahagslífi Íslands hafi stærstu bönkunum, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbanka tekist vel til með að hagræða í rekstri sínum og að framtíðin sé björt fyrir þá í alþjóðlegu samhengi.

Spurður að því hvort það sé raunsætt að bera saman íslenska banka í ljósi þess að við búum við fjármagnshöft og töluverða óvissu um hvenær og hvernig þau verða afnumin segir Fure að sú óvissa breyti ekki stöðunni mikið. Eiginfjárstaða þeirra sé nógu sterk til að standa undir áhættu vegna afnám hafta að sögn hans.

Fundurinn var haldinn á vegum Norsk íslenska viðskiptaráðsins í samvinnu við Íslandsbanka og DNB bank en á meðal þeirra sem ávörpuðu fundinn voru Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Björgólfur Jóhannesson, forstjóri Icelandair Group og Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.

VB Sjónvarp ræddi við Fure.