Afkoma tölvufyrirtækisins EJS á síðasta ári var sú besta í fimm ár. EBITDA, þ.e. rekstrarárangur samstæðunnar fyrir afskriftir og vexti, var á árinu 2004 178 milljónir króna. Endanleg niðurstaða rekstrarreikningsins fyrir skatta, er hagnaður upp á 149 milljónir króna samanborið við hagnað á árinu á undan upp á 90 milljónir króna, sem er aukning upp á 65% segir í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.

Í ársreikningi fyrirtækisins segir Viðar Viðarsson, framkvæmdastjóri félagsins, að rekstur EJS á árinu 2004 hafi verið mjög árangursríkur og fyrirtækið styrkti stöðu sína mikið á markaðnum. "Áætlanir fyrir árið voru metnaðarfullar og því einkar ánægjulegt að sjá rekstrarniðurstöðu ársins. Vegna sölu Hugar á árinu 2003 minnkuðu tekjur samstæðunnar lítillega úr 2.966 Mkr í 2.906 mkr, eða sem nemur 60 mkr. Veltuaukning móðurfélagsins, þ.e. EJS, var hins vegar umtalsverð á árinu eða 633 mkr, sem þýðir 28% aukning á milli ára og er það töluvert umfram vöxt markaðarins. Hér er að skila sér aukið og markvissara sölustarf sem og nýir vöruflokkar sem komu til á árinu, eins og símkerfalausnir og hljóð- og myndlausnir."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.