?Afkoma bankans það sem af er árinu 2005 er sú besta í sögu hans. Grunntekjumyndun samstæðunnar hélt áfram að aukast á þriðja ársfjórðungi og námu hreinar vaxtatekjur og þjónustutekjur 10,7 milljörðum króna á fjórðungnum á meðan rekstrarkostnaður var 5 milljarðar króna. Bankinn afskrifaði viðskiptavild vegna samruna eigna Burðarás inn í bankann að fjárhæð 3,3 milljarðar króna og að teknu tilliti til þess var hagnaður á þriðja ársfjórðungi 10,3 milljarðar króna fyrir skatta og rúmir 23 milljarðar króna það sem af er árinu," segir Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans.

Efnahagsreikningur bankans hefur stækkað um 405 milljarða króna eða 55% á árinu og hefur Landsbankinn þá sérstöðu að vöxturinn byggir nánast alfarið á innri vexti. Svigrúm bankans til frekari vaxtar er verulegur í ljósi mjög sterkrar eiginfjárstöðu. Uppbygging bankans á alþjóðlegri fyrirtækja- og fjárfestingabankastarfsemi gengur mjög vel og starfa nú um 230 starfsmenn á vegum bankans í London og með innkomu Kepler Equities í samstæðuna bætast aðrir 240 starfsmenn við á meginlandi Evrópu," segir Sigurjón í tilkynningu bankans.

?Uppgjör bankans er einstaklega gott og endurspeglar þær sterku stoðir sem lagðar hafa verið í rekstri samstæðunnar. Starfsemi bankans erlendis heldur áfram að vaxa og nema rekstrartekjur nú um 16% af heildarrekstrartekjum samstæðunnar. Með tilkomu Kepler Equities mun hlutfallið hækka í um þriðjung af heildartekjum samstæðunnar. Þá hefur lánasafn útibús bankans í London vaxið ört, auk þess sem starfsemi útibúsins á sviði eignafjármögnunar er að fara af stað. Það er því ljóst að markmið bankans um að 50% rekstrartekna komi frá erlendri starfsemi eru innan seilingar. Fjármögnun bankans hefur gengið mjög vel og gekk bankinn nýverið frá stærstu einstöku lántöku sem íslenskur aðili hefur tekið. Með lántökunni lengist endurgreiðsluferill lána verulega auk þess sem vægi langtímalána í heildarfjármögnun hækkar. Styður þetta vel við aukin umsvif og vöxt samstæðunnar," segir Halldór J. Kristjánsson bankastjóri í tilkynningunni.