Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 7,6 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 3,4 milljarða króna á sama tímabili ári fyrr. Arðsemi eigin fjár var 15,7% á ársgrundvelli en á sama tímabili ári fyrr var hún 7,4%. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu bankans, sem er í samræmi við drög að uppgjöri sem bankinn tilkynnti fyrr í mánuðinum.

Hreinar vaxtatekjur á fjórðungnum jukust um 6% milli ára og námu 8,8 milljörðum króna en hækkunin er rakin til stækkunar á lánasafni bankans. Hreinar þóknanatekjur jukust um 20% á milli ára og námu samtals 3,4 milljörðum króna, þar sem eignastýring, fjárfestingarbanki og verðbréfaviðskipti leiddu hækkunina.

Hreinar fjármunatekjur námu 941 milljónum króna á fjórðungnum, samanborið við 255 milljóna króna tap á sama fjórðungi síðasta árs. Breytingin mun aðallega stafa af jákvæðri virðisbreytingu á fjárfestingu í óskráðum félögum og tekjum af skráðum hluta- og skuldabréfum.

Kostnaðarhlutfall bankans á tímabilinu lækkaði á milli ára í 39,4% úr 46,7% og var það aðallega vegna sterkrar rekstrarafkomu og hagkvæmari reksturs.

Virðisrýrnun var jákvæð um 1,8 milljarða og skýrist aðallega af batnandi horfum í ferðaþjónustu og lækkaðri virðisrýrnun á lánum til einstaklinga vegna uppfærðs áhættumatslíkans. Á sama tíma ári fyrr var virðisrýrnun neikvæð um 1,1 milljarða vegna áhrifa COVID-19.

Útlán til viðskiptavina drógust saman um 0,8% á fjórðungnum og voru ríflega milljarður króna í lok september sem rakið er til vaxtahækkana Seðlabanka Íslands.

Eigið fé bankans nam 197 milljörðum króna í lok fjórðungsins og heildareiginfjárhlutfall bankans var 24,7%, að hagnaði fjórðungsins meðtöldum, samanborið við 23,0% í árslok 2020.

16,6 milljarða hagnaður á fyrstu níu mánuðunum

Uppsafnaður hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins nam 16,6 milljörðum króna, samanborið við 3,2 milljarða á sama tímabili ári fyrr. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu nam 11,7% á ársgrundvelli en var 2,4% á sama tímabili í fyrra.

Hrein virðisrýrnun á fyrstu níu mánuðum ársins var jákvæð um 2,4 milljarða, samanborið við 7 milljarða neikvæða virðisrýrnun á sama tímabili á síðasta ári.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

Afkoma Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi var sú besta í rúmlega fimm ár og nam hagnaður fjórðungsins 7,6 milljörðum króna sem samsvarar 15,7% arðsemi á ársgrundvelli sem er umfram markmið bankans og spár greiningaraðila. Bætt afkoma frá fyrra ári skýrist helst af jákvæðri virðisrýrnun sem nam 1,8 milljarði króna á fjórðungnum en undirliggjandi rekstur var einnig gríðarsterkur. Viðsnúningur virðisrýrnunar er tilkominn vegna bjartari horfa í ferðaþjónustu og er hrein virðisbreyting útlána til viðskiptavina áfram á réttri leið. Vaxtatekjur jukust um 6% milli ára í kjölfar aukningar útlána til viðskiptavina á tímabilinu, mest vegna fasteignalána. Hreinar þóknanatekjur jukust um 20% vegna sterks undirliggjandi reksturs þar sem nánast allir starfsþættir stuðla að hækkuninni. Kostnaðarhlutfall var 39,4% sem er undir markmiðum bankans og er tilkomið vegna góðrar tekjumyndunar og hagræðingaraðgerða á undanförnum misserum. Með þessari frammistöðu er Íslandsbanki á góðri leið með að ná 10% arðsemi á ársgrundvelli til lengri tíma litið. Þar að auki var útgáfa víkjandi skuldabréfs að upphæð 750m. kr. sænskra króna á fjórðungnum liður í þeirri vegferð að besta samsetningu efnahagsreiknings bankans.

Mikil viðskipti hafa verið með hlutabréf Íslandsbanka í Nasdaq kauphöllinni frá því að frumútboði bankans lauk í júní. Hluthafar Íslandsbanka eru þeir fjölmennustu af þeim fyrirtækjum sem skráð eru í íslensku kauphöllina, mikil viðskipti hafa verið með hlutabréfin og gengi bréfanna haldist sterkt frá skráningu samanborið við önnur félög skráð í íslensku kauphöllina og skráða evrópska banka.

Viðskiptavinir nýttu sér þjónustu bankans í miklum mæli á fjórðungnum var notkun stafrænna lausna meiri en nokkru sinni fyrr. Bankinn tók þátt í útgáfu grænna/blárra skuldabréfa Brims og samfélags skuldabréfs Grunnstoðar, dótturfyrirtækis Háskólans í Reykjavík.

Innleiðing nýs lánakerfis gengur vel og samkvæmt áætlun er stefnt að því að innleiðingu verði lokið fyrir áramót. Þá mun bankinn hafa lokið uppfærslu á öllum grunnkerfum bankans sem gerir okkur enn betur í stakk búin að þjónusta viðskiptavini okkar með stafrænum hætti.