*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 20. júlí 2020 08:30

Besta ár Fossa frá upphafi

Verðbréfafyrirtækið Fossar Markaðir hagnaðist um 310 milljónir í fyrra og eiginfjárhlutfall þess fór úr 19% í 29%.

Júlíus Þór Halldórsson
vb.is

Fossar Markaðir áttu sitt besta ár frá upphafi í fyrra og högnuðust um 310 milljónir, samkvæmt samanteknum heildarniðurstöðum fjármálafyrirtækja sem gefnar voru út nýlega af Fjármálaeftirliti Seðlabankans.

Eiginfjárgrunnur Fossa hækkaði auk þess mest verðbréfafyrirtækja, úr 289 milljónum í 461, og eiginfjárhlutfallið úr 19% í 29%. Rekstrarfélagið Akta sjóðir sló þeim þó við, en eiginfjárgrunnur þess fór úr 90 milljónum í 340, þrátt fyrir aðeins 74 milljóna króna hagnað á árinu. Áhættugrunnurinn jókst lítillega, en eiginfjárhlutfallið fór úr 18% í 59%.

Hástökkvari ársins meðal verðbréfa- og sjóðstýringarfyrirtækja, bæði hlutfallslega og í krónum talið, er Júpíter rekstrarfélag með 260 milljóna króna hagnað samanborið við 82 milljónir árið áður.

Hagnaður félagsins hefur ekki náð yfir 100 milljóna króna múrinn síðan 2011, en í september síðastliðnum var það sameinað Gamma, og varð með því stærsta eigna- og sjóðstýringarfyrirtæki landsins.

Á sama tíma tapaði Gamma mest allra verðbréfa- og sjóðstýringarfyrirtækja, 316 milljónum króna, vegna niðurfærslu á fagfjárfestasjóðunum Novus og Anglia, eins og greint hefur verið frá, en félagið var keypt af Kviku banka í fyrra. Arctica Finance fylgdi fast á hæla þeirra með 304 milljóna króna tap.

Stefnir hagnast mest
Mestum hagnaði skilaði rekstrarfélagið Stefnir, rétt tæpum milljarði, sem er 8,7% aukning milli ára, en félagið hefur skilað mestum hagnaði allra rekstrarfélaga á listanum síðastliðin níu ár ef frá er talið árið 2016 þegar Gamma sló þeim við með 846 milljóna króna hagnað.

Íslandssjóðir áttu sitt besta ár frá 2015 og skiluðu 436 milljóna króna hagnaði, 57% aukningu frá í fyrra og hagnaðaraukningu fjórða árið í röð, en hagnaður félagsins féll afar skarpt milli 2015 og 2016, eins og sjá má á töflunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.