Hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík fyrir árið 2005 nam 1.392,6 milljónum króna fyrir skatta samanborið við 508,9 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 1.150 milljónum króna samanborið við 409 milljónir kr. árið áður. Arðsemi eigin fjár var 42,9%.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir Geirmundi Kristinssyni sparisjóðsstjóra að afkoma ársins 2005 sú besta í sögu sjóðsins. Markaðsaðstæður hafa verið sparisjóðnum afar hagstæðar á síðastliðnu ári sem sést best í aukningu gengishagnaðar upp á 735 m. kr. á milli ára. Mikil aukning var á umsvifum Viðskiptastofunnar bæði í eignastýringu og miðlun verðbréfa. Þá var mikil aukning í útlánum og hreinar vaxtatekjur jukust um tæp 18,1% á milli ára. Vanskilahlutfall er nú í sögulegu lágmarki og var mikil vinna lögð í þann málaflokk á árinu 2005 og er stefnan að gera enn betur árið 2006 segir í tilkynningunni.

Starfsemi Sparisjóðsins hefur styrkst mikið og tekjustoðum fjölgað. Viðskiptavinum fjölgar óðum og Sparisjóðurinn kappkostar að bjóða upp á fjölbreytt og gott vöruúrval fyrir viðskiptavini sína. Sem dæmi um það þá var stofnað til samstarfs við VÍS þar sem vildarviðskiptavinir Sparisjóðsins fá sérkjör á iðgjöldum VÍS og vildarviðskiptavinir VÍS fá bætt kjör í Sparisjóðnum í Keflavík. Geirmundur segist vera bjartsýnn á framtíð Sparisjóðsins í Keflavík og býst við góðri afkomu árið 2006.

Vaxtatekjur Sparisjóðsins námu 2.526,9 m.kr. en það er 32,7% hækkun frá árinu 2004.

Vaxtagjöld hækkuðu einnig, eða um 42% og námu 1.651,1 m.kr. árið 2005

Hreinar vaxtatekjur námu því 875,8 m.kr. samanborið við 741,8 m.kr. árið 2004 sem er hækkun um 18,1%.

Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur í hlutfalli af meðalstöðu fjármagns var 3,0% árið 2005 en 3,3% árið 2004.

Aðrar rekstrartekjur hækkuðu um 857,6 m. kr. og voru 1.770,9 m.kr. árið 2005. Munar þar mest um hækkun á gengishagnaði upp á 735,2 m.kr. og tekjur af hlutabréfum og öðrum eignarhlutum upp á 102 m. kr.