Mark Lorion, forstjóri Tempo, kveðst bjartsýnn á framtíðina. „Við erum stöðugt að vinna í að breikka lausna- og vöruframboð okkar. Viðskiptavinir okkar nota sífellt fleiri forrit og tól við skipulag og því leggjum við áherslu á að lausnir okkar styðji við sem flest af þessum forritum og tólum. Markmiðið er að öll fyrirtæki geti nýtt sér lausnir Tempo, óháð því hvaða forrit og tól þau nota við skipulagningu.“

Sjá einnig:

Hann segir að vöxtur fyrirtækisins á síðasta ári hafi verið magnaður og það hafi verið besta ár í sögu fyrirtækisins. „Fyrirtæki á alþjóðavísu eru að breyta starfsemi sinni og fjarvinna er sífellt að færast í aukana. Það er líka að verða algengara að teymi séu dreifð víða um heim og lausn Tempo hjálpar fyrirtækjum að starfa við slík skilyrði. Þær breytingar sem heimssamfélagið hefur farið í gegnum vegna heimsfaraldursins falla því vel að lausnum Tempo og ég tel að þessar breytingar muni halda áfram að styðja við vöxt fyrirtækisins.“

„Faraldurinn hefur ýtt fyrirtækjum út í að hugsa hlutina upp á nýtt og skipuleggja starfsemi sína á nýjan hátt. Það skapar mikil tækifæri fyrir Tempo, enda leggjum við áherslu á að hjálpa viðskiptavinum okkar að gera skipulag sitt betra og gera þeim kleift að rýna í gögn til að finna út hvernig þeir geti aukið skilvirkni sína,“ bætir Mark við.

Ráða fjölda nýrra starfsmanna

Tempo hefur að undanförnu auglýst á annan tug lausra starfa hjá fyrirtækinu hér á landi. Mark segir að fjölgun í starfsmannahópnum sé hugsuð til að styðja við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins. „Eins og fyrr segir er Tempo með starfsmenn víða um heim og ég tel það spennandi kostur að stíga inn í umhverfi þar sem fólk á í samskiptum við teymi þvert á landamæri. Þannig víkkar sjóndeildarhringur fólks, því nýjar hugmyndir verða oft til í samskiptum teymanna. Sagan sýnir að það er nóg til af hæfileikaríku fólki hér á Íslandi og jafnvel þó að faraldurinn hafi breytt vinnustaðamenningu á þann hátt að fólk er farið að vinna í auknum mæli í fjarvinnu tel ég að margir kostir fylgi því að hafa teymi staðsett undir sama þakinu og í sama landi. Samskipti sem verða til þegar fólk vinnur í sama rýminu eru oft á tíðum ómetanleg. Við erum að fjölga starfsfólki vegna þess að fyrirtækið er að vaxa hratt. Það eru stöðugt að verða til nýjar vörur og lausnir, og því þurfum við að bæta við okkur starfsfólki,“ segir hann og bætir við að Tempo sé einnig að fjölga starfsfólki í Kanada og Bandaríkjunum.