*

miðvikudagur, 21. október 2020
Innlent 2. ágúst 2020 12:03

Besta ár ORF Líftækni frá upphafi

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, segir að árið 2019 hafi verið besta ár fyrirtækisins frá upphafi.

Magdalena A. Torfadóttir
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni.
Aðsend mynd

Árið 2019 var besta ár ORF Líftækni frá upphafi en fyrirtækið hagnaðist um 305 milljónir króna á því ári samanborið við 160 milljóna hagnað árið á undan. Rekstrartekjur fyrirtækisins á síðasta ári námu 1,97 milljörðum króna miðað við 1,59 milljarða árið á undan. Þá námu rekstrargjöld árið 2019 1,45 milljörðum króna en þau voru 1,25 milljarðar króna árið 2018.

Eignir félagsins í lok síðasta árs námu 3,2 milljörðum króna en þær voru 1,96 milljarðar króna árið á undan. Fastafjármunir fyrirtækisins á síðasta ári voru samtals 1,9 milljarðar króna og veltufjármunir 1,3 milljarðar króna. Þá var eigið fé félagsins í lok síðasta árs 1,65 milljarðar króna en í lok árs 2018 var það 1,3 milljarðar króna. Samkvæmt ársreikningnum fyrir 2019 keypti fyrirtækið á því ári fasteignina sem hýsir skrifstofur fyrirtækisins.

Covid haft mikil áhrif

Að sögn Liv Bergþórsdóttur, forstjóra ORF Líftækni, hefur COVID-19 heimsfaraldurinn haft nokkur áhrif á reksturinn. „Árið 2019 var mjög gott ár og rauninni það besta til þessa. Við gerum því miður ekki ráð fyrir því að ná sama árangri 2020 eins og við náðum 2019 en ástæðan fyrir því er COVID-19 heimsfaraldurinn og fækkun ferðamanna,“ segir Liv og bætir við að í COVID-19 faraldrinum hafi sala á netinu aukist.

„Salan á BIOEFFECT vörunum okkar, sem er okkar helsta vara, hefur í venjulegu árferði verið mikil í fríhöfnum og flugvélum víða um heim og svo mikið í stærri verslunum en í ljósi þessa dróst salan mikið saman í COVID og færðist að einhverju leyti yfir á netið.“ Spurð út í helstu áskoranirnar um þessar mundir segir Liv að það sé ljóst hversu mikilvægt það sé að efla netverslun fyrirtækisins.

„Ég myndi segja bara í ljósi þessa ástands sem við erum í núna, þegar við horfum fram á mikla fækkun ferðamanna í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins, að þá þurfum við að einblína á það að byggja upp öflugri dreifileiðir á netinu til þess að verða við eftirspurn viðskiptavina sem ekki komast út í búð eða eru ekki að ferðast.“ Liv tekur jafnframt fram að þótt fyrirtækið sé að ganga í gegnum erfiða tíma um þessar mundir stefni það ótrautt að því að vaxa enn frekar í komandi framtíð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér