Í síðustu viku ársins 2012 varð nokkur lækkun á öllum hlutabréfamörkuðum heims utan Asíu en hækkun nú fyrstu viku ársins 2013 gerir meira en að bæta upp þá lækkun. Þetta kemur fram í Dagbók eignastýringar Landsbankans um framvindu á innlendum og erlendum fjármálamarkaði.

Uppsveifla vestanhafs er einkum rakin til feginleika fjárfesta vegna þess að leysa tókst úr fjárlagavanda Bandaríkjamanna um áramótin.

Hækkun S&P 500 um 13,4% árið 2012 er sú mesta frá árinu 2009. „Hún kemur í kjölfarið á erfiðu ári 2011 þegar hlutabréf lækkuðu um allan heim,“ segir í Dagbókinni. Eftir hækkun síðustu vikna síðasta árs, ekki síst í Evrópu og Asíu, eru margar vísitölur hlutabréfa að ná upp í eða rétt yfir fyrri tíma hágildi og telur Dagbókin sýnt að nú muni reyna á hvernig tekst til við að rjúfa þau viðnám. Er í því samhengi bent á bresti á eftirspurnarhlið í málmum, hrávörum og landbúnaðarvöru og gengis evru og yens sem lækkað hafa gagnvart dollaranum.