Árið í fyrra náði VÍS sínum besta árangri í fjárfestingum frá skráningu félagsins en fjárfestingatekjur voru 5,3 milljarðar króna og nafnávöxtun 14% yfir tímabilið. Þar af skiluðu skráð hlutabréf rúmlega 35% ávöxtun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í tilefni af ársuppgjöri þess.

Á síðasta ársfjórðungi síðasta árs hagnaðist félagið um 1,8 milljarða króna en það var einmitt heildarhagnaður ársins. Hagnaður sama tímabils 2019 var 729 milljónir en árið 2019 nam hagnaður ársins rúmlega 2,5 milljarði króna. Iðgjöld síðasta árs drógust saman um rúmlega 750 milljónir og námu 22,5 milljörðum króna. Arðsemi eigin fjár dróst saman, úr 17,2% árið 2019 í 12% árið 2020.

„„Árið 2020 var sérstakt fyrir margra hluta sakir. Undirliggjandi tryggingarekstur ársins var góður m.a. vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. Neikvæð matsþróun undanfarin ár leiddi til þess að aðferðafræði við tryggingafræðilega útreikninga á tjónaskuld var aðlöguð og endurskoðuð til að lágmarka neikvæða matsþróun til framtíðar. Styrking tjónaskuldar, matsbreytingar og endurskoðuð aðferðafræði er stærsta ástæða þess að tjónaskuldin hækkaði um tæpa þrjá milljarða króna sem hafði veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu síðasta árs,“ er haft eftir Helga Bjarnasyni forstjóra í tilkynningu.

Eignir námu í árslok 54,7 milljörðum króna, jukust um rúmlega 4,4 milljarða, og skuldir 37,8 milljörðum en þær hækkuðu um 2,6 milljarða rúma milli ára. Heildartjónaskuldir, það er óuppgerð, orðin en ótilkynnt tjón, eru metnar á 21,3 milljarða eða ríflega helmingur af heildarskuldum samstæðunnar. Bókfært eigið fé var tæplega 17 milljarðar króna.

Árið í fyrra var litað af heimsfaraldrinum og færðist þjónusta félagsins meira og minna á netið. Heimsóknum á vef fjölgaði um 400%, innskráningum fjölgaði um 90% og hlutfall rafrænna tjónatilkynninga nam 60% og hefur aldrei verið hærra.