„Við höfum reynt á síðustu árum að skapa þá stemningu að viðskiptavinirnir viti að þeir eru staddir á Íslandi þegar þeir versla við Fríhöfnina,“ segir Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar.

Það er líklega hægt að fullyrða að Fríhöfnin er fyrirtæki sem er öllum Íslendingum kunnugt en á síðasta ári var hún valin besta fríhafnarverslun Evrópu á hinum árlegu Business Destination Travel verðlaunum. Fyrirtækið er í sæti hundrað yfir 462 framúarskarandi fyrirtæki ársins, að mati Creditinfo.

Ásta segir að þótt fyrirtækið sé ekki í beinni samkeppni við íslenska aðila þá séu helstu samkeppnisaðilar hennar fríhafnir stórra nærliggjandi flugstöðva á borð við Kastrup í Kaupmannahöfn, Heathrow í Lundúnum og Gardermoen í Ósló. Til að halda velli í harðri samkeppni segir Ásta lykilatriði að vera með einstakt vöruúrval.

„Það er yfirleitt þannig með flestar fríhafnir að þær eru frekar staðlaðar og bjóða oftast upp á sama úrvalið sama hvar þú ert í heiminum. Í því ljósi leggjum við áherslu á íslenskar vörur af öllu tagi og tökum eftir mikilli söluaukningu þar. Fram undan stefnum við síðan á að fjölga enn frekar erlendum viðskiptavinum,“ segir hún.

Nánar má lesa yfir fyrirtækin í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem fylgdi Viðskiptablaðinu á dögunum. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð .