Hlutabréfaverð í Bandaríkjunum og Evrópu hækkuðu í gær í kjölfar væntinga fjárfesta um niðurstöður kosninganna vestanhafs yrðu til þess að völdunum yrði skipt milli flokkanna þannig að hvorugur gæti náð sínum öfgafyllstu stefnumálum í gegn.

Þannig virðist bjartsýni á sigur frambjóðanda Demókrata í forsetaembættið ýta undir hækkanir í Asíu, en hluthafar víða virðast einnig ánægðir með að Repúblikanar muni halda Öldungadeild bandaríska þingsins og þannig halda aftur af því að hann geti hækkað skatta jafnmikið og fram hefur komið í kosningaloforðum.

Bréf á hlutabréfamörkuðum í Evrópu hækkuðu í gær, fimmtudag, í kjölfar hækkana á mörkuðum í Asíu, en hafa víða farið lækkandi á ný í dag eftir að markaðir opnuðu. Áframhaldandi hækkanir voru svo í dag á mörkuðum víða í Asíu, eða í nótt að íslenskum tíma, þar á meðal í Taiwan, þó lækkanir hafi verið á mörkuðum á meginlandi Kína og Hong Kong.

Virðist sem bjartsýni sé á að líklegt kjör Joe Biden frambjóðanda Demókrata þýði betri stöðu fyrir útflutningsdrifin hagkerfi landanna en áframhaldandi seta Donald Trump frambjóðanda Repúblikana sem hefur eldað grátt silfur við mörg ríkjanna í viðskiptadeilum.

Ekki hærri síðan í árslok 1991

Nikkei vísitalan í Japan náði þannig sínu hæsta gildi í 29 ár, eða 24.345,23 stigum, eftir 0,91% hækkun í dag föstudag. Vísitalan hefur þar með ekki verið hærri síðan í nóvember 1991.

Greinendur sem Fortune tímaritið vísar til segja að með þing sem skipt er milli Demókratameirihluta í neðri deild, Fulltrúadeildinni, og Repúblikanameirihluta í eftri deild, Öldungadeildinni, muni halda skattastefnu Bandaríkjanna, og öðrum stefnumálum, tiltölulega stöðugri.

Er jafnframt vísað til þess að stjórn Demókrata á Hvíta Húsinu en Repúblikana á þinginu sé besta mögulega staðan (þess má geta að sú var staðan að stórum hluta meðan Bill Clinton var í forsetaembættinu). Vísar Bizuho Bank til stöðunnar sem 'Goldilocks Gridlock'.

Einnig eru væntingar til þess að með sigri Biden verði utanríkisstefna Bandaríkjanna stöðugri og og segir Jackson Wong, sjóðsstjóri hjá Amber Hill Capital að „fjárfestar fagna því. Þess vegna eru gott gengi á mörkuðum nú.“