Rekstur Íslenskra verðbréfa hf. gekk mjög vel á árinu 2007, sem var það besta í tuttugu ára sögu félagsins. Hagnaður fyrir reiknaðan tekjuskatt nam 520 milljónum króna og eftir reiknaðan tekjuskatt var hagnaðurinn 426,6 milljónir króna. Arðsemi eigin fjár félagsins var 136,7% á árinu.

Í fréttatilkynningu segir að Íslensk verðbréf hf. eru sérhæft fjármálafyrirtæki á sviði eignastýringar. Félagið stýrir rúmlega 92 milljörðum króna fyrir viðskiptamenn sína, sem eru m.a. lífeyrissjóðir, tryggingarfélög, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar.

Vöxtur Íslenskra verðbréfa hf. var mikill á síðasta ári og svo hefur raunar verið á undanförnum árum. Eignir í eignastýringu jukust umtalsvert á árinu og að sama skapi fjölgaði viðskiptavinum verulega.

Hjá Íslenskum verðbréfum starfa nú tuttugu vel menntaðir starfsmenn, sem hafa mikla og langa reynslu af því að starfa á verðbréfamarkaði.

Íslensk verðbréf hafa lagt ríka áherslu á faglega og jafnframt persónulega þjónustu. Samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar á síðasta ári voru 95% fagfjárfesta ánægð eða mjög ánægð með samskipti við starfsfólk Íslenskra verðbréfa og einnig kom fram að yfir 95% fagfjárfesta telja Íslensk verðbréf yfir meðallagi eða framúrskarandi í stýringu skuldabréfa.

Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, er mjög ánægður með afkomu félagsins á árinu 2007. „Rekstrarárangur félagsins á árinu 2007 er sá besti frá stofnun þess, sem telur tuttugu ár. Við getum ekki annað en verið afar sátt við þessa niðurstöðu, ekki síst þegar horft er til erfiðra markaðsaðstæðna undir lok ársins. Styrkur félagsins felst í þeirri sérstöðu sem það hefur skapað sér og þeirri stefnu að vera sérhæft eignastýringafyrirtæki. Þá hefur félagið yfir afbragðs góðu starfsfólki að ráða, sem kann sitt fag. Allt hefur þetta skilað þeim frábæra árangri sem við náðum í rekstri fyrirtækisins á síðasta ári,“ segir Sævar Helgason í tilkynningunni.