Rekstur Íslenskra verðbréfa hf. gekk vel á árinu 2006 og mikill vöxtur einkenndi starfsemina segir í fréttatilkynningu félagsins. Hagnaður nam 491 milljón króna og að teknu tilliti til reiknaðs tekjuskatts var hagnaður 403 milljónir króna. Þetta er besta rekstrarár í sögu félagsins.

Sævar Helgason  framkvæmdastjóri er mjög ánægður með árangurinn að því er kemur fram í tilkynningunni: ?Hagnaðurinn er sá mesti í 20 ára sögu félagsins og talsverð aukning varð á eignum í stýringu.
Ávöxtun safna viðskiptavina var jafnframt góð. Árangurinn má þakka skýrri stefnu ásamt öflugum og samstilltum hópi starfsmanna? að sögn Sævars. Íslensk verðbréf hf. er sérhæft fjármálafyrirtæki á sviði eignastýringar og stýrir félagið um 90 milljörðum króna fyrir viðskiptavini sína, sem telja lífeyrissjóði, tryggingarfélög, fyrirtæki og einstaklinga svo fátt eitt sé talið. Íslensk verðbréf hf. var stofnað árið 1987 og fagnar því 20 ára afmæli á árinu.

Íslensk verðbréf hf. var stofnað árið 1987 og er eina fjármálafyrirtækið sem er með höfuðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins.  Stærstu hluthafar félagsins eru Íslensk eignastýring, Sparisjóður Norðlendinga og Lífeyrissjóður Norðurlands.

Rekstur Íslenskra verðbréfa hf. hefur gengið vel á undanförnum árum og námu tekjur félagsins á árinu 2004 tæpum 500 milljónum króna og hagnaður eftir skatta nam 233 milljónum króna.