Hagnaður Lýsingar hf. nam 1.009 milljónum króna árið 2006 eftir skatta, samanborið við 689,2 milljónir króna árið 2005, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Lýsing hf. er dótturfélag Exista hf. en á árinu keypti Exista allt hlutafé í VÍS eignarhaldsfélagi hf. Aðalstarfsemi Lýsingar er á sviði eignarleigu með fjármögnun á atvinnutækjum, atvinnuhúsnæði og bifreiðum fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Árið 2006 var 20. heila starfsár Lýsingar og besta rekstrarár félagsins frá upphafi. Starfsemi ársins einkenndist af miklum vexti í útlánum, sem jukust um 61,99% og voru 59.951 milljónir króna í árslok. Þá var staða vanskila mjög góð og afskrifaðar tapaðar kröfur 0,32% af útlánum í upphafi árs en meðaltal síðastliðinna þriggja ára 0,40%. Heildarniðurstaða efnahagsreiknings var í árslok 61,3 milljarðar króna, segir í tilkynningunni.

Eigið fé Lýsingar hf. var í árslok 4,96 milljarðar króna og víkjandi lán 1,54 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall reiknað skv. lögum er 10,97%. Lykiltölur ársins 2006 og samanburðartölur frá árunum á undan sýna góðan vöxt í rekstri fyrirtækisins en einnig jókst fjöldi viðskiptavina Lýsingar um 37% á sama tímabili.

Fjöldi starfsmanna var 61 í árslok. Í stjórn Lýsingar hf. eru Sigurður Valtýsson, Erlendur Hjaltason, Sveinn Þór Stefánsson, Bjarni Brynjólfsson og Ásmundur Tryggvason. Framkvæmdastjóri er Ólafur Helgi Ólafsson.