Heildarfjöldi farþega Icelandair var 387 þúsund í nýliðnum septembermánuði. Sætanýting var 83,3%, sem er besta sætanýting félagsins í septembermánuði frá upphafi. Fjöldi farþega var um 86% af fjöldanum í september árið 2019 og sætaframboð 84% af framboðinu 2019. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í mánaðarlegum flutningatölum sem birtar voru í Kauphöll rétt í þessu.

„Nú er þriðja ársfjórðungi lokið og flutti félagið rúmlega tvöfalt fleiri farþega í ár miðað við þriðja ársfjórðung 2021. Þá er farþegafjöldinn á fjórðunginum tæp 88% af fjöldanum á sama tímabili 2019,“ segir í tilkynningunni.

Farþegar í millilandaflugi voru 362 þúsund samanborið við 191 þúsund í september 2021. Fjöldi farþega til Íslands var 141 þúsund og frá Íslandi 48 þúsund. Tengifarþegar voru 173 þúsund, eða 48% af heildarfjölda millilandafarþega. Sætanýting í millilandaflugi var 83,4%, samanborið við 62% í september 2021.

Stundvísi Icelandair í september var 71%. „Nokkrir samverkandi þættir skýra lægri stundvísi í september en mest áhrif hafði veður í Keflavík og viðhald flugvéla.“

Fjöldi farþega í innanlandsflugi var um 25 þúsund, samanborið við um 21 þúsund í september 2021. Sætanýting í innanlandsflugi var 78,5% samanborið við um 71% í september 2021. Stundvísi var 71%.

„Nokkrar raskanir hafa verið í innanlandsflugi sem skýrast af flugvélaskorti sem komið hefur upp vegna viðhalds.“

Seldir blokktímar í leiguflugi voru 22% fleiri en á sama tíma í fyrra. Fraktflutningar minnkuðu um 19% samanborið við september í fyrra.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Það er ánægjulegt að sjá þann viðsnúning sem orðið hefur í starfseminni og hve vel hefur gengið að koma félaginu á réttan kjöl eftir heimsfaraldur. Sætanýting hefur aldrei verið betri, farþegafjöldinn hefur náð góðu jafnvægi undanfarna mánuði og hlutfall tengifarþega er farið að nálgast það sem það var áður.

Þessum viðsnúningi hafa þó fylgt áskoranir. Í sumar sáum við skýrt að innviðirnir á mörgum flugvöllum sem við fljúgum til erlendis héldu ekki í við vöxtinn og hlutust af því nokkrar raskanir. Við höfum jafnframt staðið frammi fyrir áskorunum í innanlandsfluginu, meðal annars vegna viðhaldsverkefna sem hafa valdið röskunum á flugi. Við vinnum nú markvisst að því að bæta þjónustu við farþega og tryggja stöðugleika í flugáætluninni innanlands. Ég vil þakka viðskiptavinum fyrir þolinmæðina í gegnum þetta uppbyggingartímabil og starfsfólki félagsins fyrir þeirra mikilvæga framlag.“