*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 3. apríl 2016 13:10

Á besta stað á Íslandi

Ólafur Laufdal rak nokkra vinsælustu skemmtistaði landsins en helgar sig nú uppbyggingu Hótel Grímsborga.

Ólafur Heiðar Helgason
Haraldur Guðjónsson

Undanfarin ár hafa Ólafur Laufdal og eiginkona hans Kristín Ketilsdóttir byggt upp hótelið Grímsborgir í Grímsnesi.

Hver var aðdragandinn að því að þið hófust handa við byggingu Hótel Grímsborga?

„Kveikjan að því er sú að við áttum sumarbústað við Álftavatn sem við ákváðum síðan að selja þegar mikil kynslóðaskipti áttu sér stað í sumarhúsaeign á svæðinu. Bústaðurinn var á besta stað og seldist samdægurs. Síðan er sveitarfélagið að auglýsa lóðir í þessu hverfi til heilsársbúsetu og með húsbúnaði og öllu tilheyrandi. Þá skellur efnahagshrunið á heiminum, eftirspurnin hvarf að mestu en ég náði að halda áfram með uppbygginguna.

Ég fékk þessu síðan breytt yfir í gistihús og þar með var teningunum kastað og hótelrekstur hafinn. Síðan höfum við haldið áfram með uppbygginguna og erum nú komin með gistingu fyrir 200 manns og búin að byggja hérna þrettán hús. Núna um áramótin var ég að kaupa tíu nýjar lóðir til viðbótar og á því 26 lóðir hérna.“

Hver er sérstaða Hótel Grímsborga?

„Staðsetningin annars vegar og gæðin hins vegar. Við erum á besta stað á Íslandi, í miðjum Gullna hringnum, við Sogið. Landið er kjarri vaxið í 45 mínútna fjarlægð frá Reykjavík og 10 mínútur frá Selfossi og fjallasýn mikil, svo ekki sé minnst á Norðurljósin þegar himnarnir skarta þeim. Þá er enginn staður betri til að njóta þeirra  en Grímsborgirnar. Þá má nefna Kerið sem er rétt hjá og tveir golfvellir í innan 10 mínútna fjarlægðar frá okkur og Þingvellirnir skammt undan. Staðsetningin er því úrvals góð.

Við erum síðan með einar fimm mismunandi gerðir af gistingu og nýjan veitingasal sem tekur 170 manns í sæti og sérstakar ferðir sem við bjóðum upp á bæði um Gullna hringinn og suðurströndina til Víkur, og eru þessar ferðir mjög vinsælar þar sem fólk getur keypt sér prívat ferðir með góðri leiðsögn um svæðið. Þannig að þetta er sérstaðan; gæðin og Gullni hringurinn.“

Ítarlegt viðtal við Ólaf er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Ólafur Laufdal