Hagnaður eignarleigufyrirtækisins SP-Fjármögnunar eftir skatta jókst um 58% árið 2005 og nam 480 milljónum, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands. SP-Fjármögnun segir fyrirtækið það besta í sögu fyirirtækisins.

Útlán félagsins jukust mikið á árinu 2005 og námu ný útlán 16,7 milljörðum króna sem er um 57% aukning frá fyrra ári. Á árinu stækkaði efnahagreikningur félagsins um 50% og var í árslok 22,4 milljarðar, þar af eru útlán félagsins tæpir 21,8 milljarður, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fyrirtækið segir innheimtur hafa gengið mjög vel á árinu 2005 og eru heildarvanskil í árslok 2005 um 230 milljónir króna, eða um 1% af heildarútlánum og höfðu lækkað úr 2,1% í ársbyrjun. Á sama tíma nam virðisrýrnunarreikningur útlána hins vegar 2,8% af útlánum eða 634 milljónum króna.

Hagnaður á hverja krónu hlutafjár, sem mældur er sem hlutfall hagnaðar og vegins meðaltals hlutafjár á árinu, nam 1,21.

SP-Fjármögnun hf. er eignaleigufyrirtæki og er dótturfélag Landsbanka Íslands, sem á 51,0% hlutafjár. Aðrir hluthafar er ýmsir sparisjóðir, en þeir sparisjóðir sem eiga meira en 10% hlutafjár eru Sparisjóður Vélstjóra sem á 17,2% og Sparisjóður Hafnarfjarðar sem á 10,7%.