Hagnaður Samherja á síðasta ári nam 1.915 milljónum króna. Hagnaður af rekstri félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) nam 5.406 milljónum króna en um 40% af þeirri fjárhæð kemur frá erlendri starfsemi. Þetta er besti árangur félagsins frá upphafi segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.


Rekstrartekjur samstæðunnar námu 23.704 milljónum króna og jukust um ríflega 11% frá árinu 2005. Rekstargjöld ársins voru 18.298 milljónir og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 5.406 milljónir króna. Afskriftir voru 1.729 milljónir króna og voru fjármagnsliðir neikvæðir um 1.423 milljónir króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam 16 milljónum króna, hagnaður fyrir tekjuskatt var 2.270 milljónir og hagnaður eftir tekjuskatt og hlutdeild minnihluta nam 1.915 milljónum króna eins og áður segir. Veltufé frá rekstri var 2.115 milljónir króna og handbært fé frá rekstri 1.866 milljónir króna.


Samherji gerir ekki upp samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og nemur gjaldfærsla óefnislegra eigna tæpum 900 milljónum króna í ársreikningi félagsins sem gera má ráð fyrir að væru ekki gjaldfærðar í reikningsskilum samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.


Heildareignir samstæðunnar í árslok 2006 voru bókfærðar á 41.971 milljónir króna. Skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 32.144 milljónum króna, hlutdeild minnihluta í eigin fé nam 622 milljónum og var bókfært eigið fé samstæðunnar í árslok 9.205 milljónir króna. Heildar eignir samstæðunnar aukast um 13.283 milljónir króna og stafar aukningin að verulegum hluta af fjárfestingum Kaldbaks, dótturfélags Samherja sem námu 9.435 milljónum króna á árinu. Þessi mikla stækkun á efnahagsreikningi samstæðunnar hefur þau áhrif að eiginfjárhlutfall samstæðunnar lækkar úr 25% í 22% á sama tíma og eigið fé samstæðunnar eykst um 2.110 milljónir króna.


Áhrif dótturfélaga á afkomu Samherja voru jákvæð um 900 milljónir króna á árinu Öll erlend dótturfélög Samherja skiluðu góðum hagnaði á árinu og þá var hagnaður af rekstri Oddeyrar ehf.


Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að rekstur Samherja gekk vel á síðasta ári og eru horfur á árinu 2007 almennt góðar. Áframhaldandi sterk króna og háir innlendir vextir munu þó hafa neikvæð áhrif á afkomuna hérlendis.