Daimler Benz birti uppgjör sitt fyrir 2. ársfjórðung í morgun. Félagið hefur aldrei hagnast meira á einum ársfjórðungi í 125 ára sögu félagsins.

Hagnaður félagins jókst um 30% milli ára og nam 1,7 milljarði evra en var 1,3 milljarðar evra á sama tímabili 2010. Áríð gæti orðið besta ár félagins.

Mercedes Benz bifreiðar hafa aldrei selst betur. Á ársfjórðungnum seldust 357.000 bílar í samanburði við 342.000 bíla árið áður.

Félagið gaf upp fyrr í sumar hvar söluaukning átti sér stað í heiminum. Á fyrsta ársfjórðungi  skýrðist hún af mikilli aukningu í BRIC löndunum, Brasilíu (34,7%), Rússlandi (70,6%), Indlandi (40,3%) og Kína (52,3%).  Söluaukningin nam 13% í Bandaríkjunum á fyrri helmingi ársins.

Stjórnendur félagsins segja að söluaukningin verði ekki eins mikil á seinni hluta ársins eins og á fyrri helmingnum.