Þriðji ársfjórðungur var sá besti í sögunni fyrir Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, hvort sem litið er til tekna eða hagnaðar.

Hagnaður félagsins á þriðja ársfjórðungi nam 502 milljónum króna  og jókst um 5%. Hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 1.038 milljónum króna og eykst um 26% milli ára.

EBITDA hagnaður félagsins nam 1.026 milljónum króna á ársfjórðungnum og hækkaði um þrjár milljónir milli ára.EBITDA á fyrstu níu mánuðum ársins nam 2.521 milljónum króna og er það hækkun um 8% milli ára.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 57,9% og handbært fé frá rekstri var 16% hærra en á sama tímabili í fyrra.

Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone segir:

„Rekstur félagsins stóð áfram traustum fótum á þriðja fjórðungi ársins og hagnaður hélt áfram að aukast. Tekjur samstæðunnar jukust einkum af sjónvarpi, interneti og vörusölu í takt við áherslu félagsins á að færa viðskiptavinum nýjungar á þessum sviðum. Vöxtur var í tekjum af farsíma á Íslandi en samdráttur í Færeyjum þar sem verð lækkuðu mikið í kjölfar harðrar verðsamkeppni á færeyska markaðnum. Þrátt fyrir þetta er þriðji fjórðungur besti ársfjórðungur í sögunni hvort sem litið er til tekna eða hagnaðar sem mjög ánægjuleg niðurstaða.“