Árshlutareikningur Fjarskipta hf., móðurfélags Vodafone, var birtur í dag . Árshlutareikningurinn tekur til fjórða ársfjórðungs og samkvæmt honum nam hagnaður samstæðunnar 273 milljónum króna eftir skatta. Sé litið til ársins í heild nam hagnaðurinn 1.094 milljónum eftir skatta. Stjórn Vodafone leggur til að arður að fjárhæð 219 milljónir króna verði greiddur til hluthafa.

„Það er ánægjulegt að loka árinu 2014 með góðu uppgjöri, með hagnaði í fyrsta sinn vel yfir milljarð, eða aukningu um 29% milli ára. Hagnaður ársfjórðungsins eykst einnig um 36% á milli ára sem er ekki síður jákvætt í ljósi þess að samanburðurinn er við sögulega sterkan fjórða fjórðung árið 2013.  Árið 2014 var um margt sérstakt. Fyrri hlutinn einkenndist af mikilli innri vinnu í tengslum við innviði og öryggismál félagsins en seinni hlutinn af sókn á fjölmörgum sviðum á sama tíma og ágætur árangur náðist á kostnaðarhliðinni." Þetta segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone í tilkynningu.

Ætla að verða stærstir í sjónvarpsþjónustu

Stefán segir jafnframt að ætlun Vodafone sé að verða stærstir í sjónvarpsþjónustu. „Við höfum lagt lokahönd á nýja stefnu fyrir félagið og á sama tíma hafa fjölmörg mikilvæg skref verið stigin á sviði nýjunga í þjónustu og vöruframboði, s.s. kynning RED varanna og M2M-lausna (e. Machine-to-Machine) fyrir fyrirtæki. Fleiri nýjungar eru framundan, ekki síst á sviði frekari uppbyggingar sjónvarpsþjónustu félagsins þar sem markmið okkar er skýrt; að taka forystu í sjónvarpsþjónustu á Íslandi. Nýja árið leggst því vel í okkur hjá Vodafone."