Hagnaður hluthafa Kaupþings banka nam 67,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við 34,5 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins 2005, segir í tilkynningu frá bankanum.

Bankinn seldi á ársfjórðungnum 10,1% heildarhlutafjár Exista í tengslum við skráningu þess í Kauphöll Íslands og bókfærir alls um 26 milljarða królna gengishagnað vegna Exista.

Hagnaður hluthafa á þriðja ársfjórðungi nam því 35,4 milljörðum, miðað við 9,7 milljarða á sama tímabili árið 2005.

"Þriðji ársfjórðungur er besti fjórðungur Kaupþings banka frá upphafi. Uppgjörið einkennist af miklum gengishagnaði vegna sölu á eignarhlut bankans í Exista í tengslum við skráningu félagsins í Kauphöll Íslands. Nú þegar er hagnaðurinn orðinn mun meiri en hann var á öllu síðasta ári sem þó var met ár," segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka.

"Undirliggjandi vöxtur bankans er góður og er reksturinn mun öflugri nú en hann var í ársbyrjun. Horfurnar í rekstrinum eru jákvæðar og við munum fljótlega sjá árangur af fjárfestingum okkar í rekstrinum í Danmörku og í Bretlandi. Þá eru gæði eigna bankans mjög mikil og fjármögnun bankans traust en nú hafa allar afborganir langtímalána vegna ársins 2007 verið fjármagnaðar," segir Hreiðar Már.

Arðsemi eigin fjár á fyrstu níu mánuðum ársins var 47,2% á ársgrundvelli. Hagnaður á hlut á fyrstu níu mánuðum ársins var 101,3 krónur (52,7 krónur sama tímabil 2005). Hagnaður á hlut á þriðja ársfjórðungi var 53,4 krónur (14,8 krónur sama tímabil 2005).

Gengishagnaður nam 37,3 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi og jókst um 680,7% miðað við sama tímabili 2005.

Hreinar vaxtatekjur námu 12,7 milljörðum á þriðja ársfjórðungi ? jukust um 33,7% miðað við sama tímabili 2005. Rekstrartekjur námu 59,8 milljörðum á þriðja ársfjórðungi ? jukust um 158,6% miðað við sama tímabili 2005.

Heildareignir námu 3.663 milljörðum króna í lok september og hafa aukist um 24% á föstu gengi frá áramótum en um 44,2% í íslenskum krónum.

Bankinn hefur greitt 7,7% af heildarhlutafé Exista í arð til hluthafa. Arðgreiðslan fór fram 26. október og við það fór eignarhlutur bankans í Exista niður fyrir 4%. Ekki er tekið tillit til þessarar arðgreiðslu í árshlutareikningnum.