Fylgi Sjálfstæðisflokks og Besta flokksins er jafnt samkvæmt nýrri könnun Gallup á fylgi flokka í Reykjavík.

Helstu breytingar frá Gallup könnun í september 2012 eru þær að fylgi Besta flokksins eykst um 14 prósentustig og segjast nú nær 32% þeirra sem taka afstöðu myndu kjósa Besta flokkinn færu kosningar til borgarstjórnar fram í dag. Sama hlutfall myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn en fylgi við hann hefur minnkað um 10 prósentustig frá september 2012.

Fylgi Samfylkingarinnar minnkar um þrjú prósentustig milli mælinga en tæplega 17% segjast myndu kjósa flokkinn færu kosningar til borgarstjórnar fram í dag. Fylgi við Framsóknarflokkinn eykst um fimm prósentustig en tæplega 9% segjast myndu kjósa flokkinn. Rúmlega 3% myndu kjósa aðra flokka.

Liðlega 12% svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og ríflega 9% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef borgarstjórnarkosningar færu fram í dag. Ef borgarfulltrúum er skipt milli flokka út frá niðurstöðum könnunarinnar fengju Besti flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fimm borgarfulltrúa hvor, Samfylkingin fengi þrjá og Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Framsóknarflokkurinn fengju sinn hvorn borgarfulltrúann.