Nokkrar breytingar hafa orðið á fylgi í Reykjavík samkvæmt nýrri könnun Capacent um fylgi stjórnmálaflokkanna í Reykjavík.

Á vef Capacent er í dag greint frá nýrri könnun. Helstu breytingar frá fyrri könnun eru þær að fylgi Besta flokksins eykst um nær fjögur prósentustig frá því í mars og segjast nú nær 23% þeirra sem nefna flokk ætla að kjósa Besta flokkinn færu kosningar til borgarstjórnar fram í dag.

Að sama skapi minnkar fylgi við Vinstrihreyfinguna - grænt framboð um rúmlega þrjú prósentustig en um 10% segjast myndu kjósa flokkinn nú.

Nær 39% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem er um prósentustigi minna en í mars en um 21% segist myndi kjósa Samfylkinguna sem er sama hlutfall og í mars. Aðeins 2% segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn.

Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn fengi nú sjö borgarfulltrúa, Samfylkingin þrjá, Vinstri grænir einn og Besti flokkurinn fjóra. Besti flokkurinn myndi því tapa tveimur borgarfulltrúum til Sjálfstæðisflokksins miðað við núverandi stöðu.

Rösklega 7% segjast myndu kjósa aðra flokka en þá sem eiga sæti í borgarstjórn Reykjavíkur í dag sem er aukning um prósentustig frá því í mars. Rúmlega 14% svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og ríflega 11% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef borgarstjórnarkosningar færu fram í dag.