Besti flokkurinn hyggst taka styrkveitingar til pólitískra framboða í borginni til endurskoðunar. Sitjandi flokkar fá samtals um 29,6 milljónir í sinn hlut á þessu ári en Besti flokkurinn og önnur ný framboð fá ekkert.

Jón Gnarr, formaður Besta flokksins, tók við embætti borgarstjóra af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins á þriðjudag. Afburða gott gengi Besta flokksins í nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum í Reykjavík hefur vakið feikna athygli. Hann náði því að verða stærsta stjórnmálaaflið með 6 kjörna borgarfulltrúa. Samt var fjárhagslegt bakland framboðsins nær ekkert fyrir utan misdjúpa vasa þeirra einstaklinga sem að því stóðu. Þá naut framboðið ekki heldur stuðnings borgarinnar sem veitt hefur sitjandi flokknum á annað hundrað milljóna króna fjárhagsstuðning á síðustu fjórum árum.

Gaukur Úlfarsson, fjölmiðlafulltrúi Besta flokksins, segir enga styrki hafa runnið úr borgarsjóði til framboðsins í aðdraganda kosninganna í maí. „Við nutum engra styrkja frekar en aðrir flokkar sem koma nýir að málum. Við vissum reyndar ekki að slíkt væri mögulegt." Segir Gaukur að þrátt fyrir góðan árangur hafi kostnaður við framboðið verið sáralítill. "Þetta var meira gert á viljanum og mikið af fólki í sjálfboðavinnu. Ég held að það hafi sýnt sig að fólk er farið að sjá í gegnum þessa hefðbundnu auglýsingamennsku."

Til skoðunar hjá flokknum

Gaukur segir að innan Besta flokksins hafi komið upp umræða hvernig breyta megi stuðningi við framboð í sveitarstjórnarkosningum. "Við höfum þó ekki komist að neinni fastri niðurstöðu en velt fyrir okkur mörgum hugmyndum. Það hefur bara verið það mikið að gera undanfarið að þetta hefur svolítið setið á hakanum. Þetta er hlutur sem við ætlum að skoða, en við höfum varla haft tíma til að skilgreina okkur sem stjórnmálaflokk og erum ekki einu sinni viss um að við viljum skilgreina okkur sem stjórnmálaflokk," segir Gaukur.

Sjá nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins