Fjármálastjóri Reykjavíkurborgar lagði fram tillögur um viðbrögð vegna áhættu borgarsjóðs vegna skuldastöðu Orkuveitu Reykjavíkur á fundi í borgarráði í dag. Þar eru dregin fram nokkur af þeim verkefnum sem bíða nýrrar stjórnar Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar sem eigandi í málefnum fyrirtækisins.

Í tillögunum er að finna hugmyndir um að setja á laggirnar sérstakan áhættustýringarhóp Reykjavíkurborgar til að fylgjast með og miðla til borgarráðs upplýsingum og tillögum á grundvelli áhættugreininga Fjármálaskrifstofu. Jafnfram að móta arðsstefnu gagnvart OR til lengri tíma.

Í tillögunum er því meðal annars beint til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að gera sem fyrst áætlun um þróun gjaldskrá til næstu ára sem hefur það að markmiði að ná ásættanlegu greiðsluhæfi fyrirtækisins.

Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar lagði fram bókun á fundinum þar sem hann leggur áherslu á að auðlindir verði nýttar þannig að ekki sé gengið á framtíðarmöguleika til nýtingar þeirra, að ákvarðanir um nýtingu aðlinda og nýtingin sjálf einkennist af ást og virðingu fyrir umhverfinu og að borgarbúar njóti öruggrar þjónustu frá traustum aðilum og geti gengið að upplýsingum um störf og stöðu orkufyrirtækja í eigu borgarinnar.

Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar tekur fram að orkuveitan sé snilldarfyrirtæki sem sjái borgarbúum meðal annars fyrir rafmagni og yl.

---

Tillögur fjármálastjóra Reykjavíkurborgar:

Lagt er til að borgarráð samþykki eftirfarandi tillögur um viðbrögð:

Settur verði á laggir sérstakur stýrihópur, áhættustýringarhópur Reykjavíkurborgar, til að fylgjast með og miðla til borgarstjóra og borgarráðs upplýsingum og tillögum á grundvelli áhættugreininga Fjármálaskrifstofu.

Tekin verði upp markvisst vinna að því að auka trúverðugleika Reykjavíkurborgar sem bakábyrgðaraðila gagnvart lánamörkuðum með eftirtöldum aðgerðum en þessar aðgerðir munu einnig hafa áhrif á aðgengi og lánskjör við samningsgerð um endurfjármögnun:

Viðhalda sterkri lausafjárstöðu A-hluta borgarsjóðs á árinu í a.m.k. 10-12 ma.

Móta arðsstefnu gagnvart OR til lengri tíma. Eftirfarandi verði beint  til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur:

Gerð verði sem fyrst áætlun um þróun gjaldskráa til næstu ára sem hefur það að markmiði að ná ásættanlegu greiðsluhæfi fyrirtækisins, þ.e. ásættanlegum skulda-/vaxtaþekjuhlutföllum, fyrir árin 2010-2013.

Ekki verði hafnar  frekari framkvæmdir fyrr en fjármögnun þeirra er að fullu tryggð.

Verkefnafjármögnun verði skoðuð sem möguleg fjármögnunarleið við öflun raforku fyrir stóriðju.

Bókun meirihluta Besta flokks og Samfylkingarinnar auk gagnbókunum:

Bókun meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnnar um málefni Orkuveitu Reykjavíkur

Í starfi Orkuveitu Reykjavíkur leggur nýr meirihluti borgarstjórnar megináherslu á þrennt:

Auðlindir verði nýttar með þeim hætti að ekki sé gengið á framtíðarmöguleika til nýtingar þeirra.

Allar ákvarðanir um nýtingu auðlinda og nýtingin sjálf einkennist af ást og virðingu fyrir umhverfinu.

Borgarbúar njóti öruggrar þjónustu frá traustum aðilum og geti gengið að upplýsingum um störf og stöðu orkufyrirtækja í eigu borgarinnar.

Orkuveita Reykjavíkur er snilldarfyrirtæki sem sér borgarbúum fyrir rafmagni, yl, vatni, frárennsli og gagnaveitu. Líklega er engin höfuðborg í heiminum jafn vel sett hvað varðar þessa mikilvægu grunnþjónustu sem er bæði hagkvæm, umhverfisvæn og örugg. Borgaryfirvöld vilja tryggja að Reykvíkingar og aðrir viðskiptavinir Orkuveitunnar njóti þess um ókomna tíð að eiga aðgang að öruggri orku, vatni, gagnaveitu og frárennsli. Sammæli er um að þessu markmiði sé best náð með því að OR sé áfram í eigu almennings. Hlutverk OR er fyrst og fremst að sinna þörfum íbúa fyrir orku, vatni, frárennsli og gagnaveitu.

Þátttaka í áhættusömum framkvæmdum kann að vera spennandi en á ekki að vera þáttur í reglulegri starfsemi OR. Kjarnastarfsemi er almannaþjónusta. Almannahagsmunir koma fyrst. Lykilatriði í starfi stjórnar er að leita allra leiða til að styrkja rekstur Orkuveitunnar, að halda Orkuveitunni í eigu almennings og tryggja grunnþjónustu á sanngjörnu verði. Veganesti borgaryfirvalda til nýrrar stjórnar Orkuveitunnar er að snúa sér þegar í stað að eftirfarandi verkþáttum:

Verkáætlun fyrir stjórn Orkuveitunnar

Skilgreina skal úttekt á rekstrinum með það að markmiði að skýra stöðu mála og draga fram þær áskoranir og þá möguleika sem eru í stöðunni.

Meta þarf ýmsa þætti í skipulagi og rekstri starfseminnar þegar í stað, með það fyrir augum að komast hjá frekari vanda. Í  úttektinni verður að taka á skipulagi, rekstri og stöðu framkvæmda þannig að ljóst sé við hvaða búi er tekið.

Fjármögnun verður sérstakur þáttur í starfi stjórnar. Bráðavanda Orkuveitunnar má ekki vanmeta. Mikilvægt er að ná utan um þau mál hratt og örugglega. Ná verður ásættanlegu jafnvægi milli tekna og gjalda sem allra fyrst. Úttekt er eitt, framkvæmd stefnu er annað.

Hlutverk stjórnar er að innleiða stefnu borgarstjórnar og áherslur hinnar nýju orku- og auðlindanefndar í starfsemi Orkuveitunnar. Sveigja á af stóriðjustefnu, til aukinnar fjölbreytni í orkusölu og að sjálfbærri almannaþjónustu. Brýnar breytingar kalla á skýra forystu stjórnar Orkuveitunnar.

Stjórnarformaður mun fyrst um sinn sinna því verkefni í fullu starfi til  að meta stöðuna með stjórn fyrirtækisins og vinna að nauðsynlegum breytingum.

Orkuveitan er frábært fyrirtæki og við erum vel sett að eiga umhverfisvæna orku og gott vatn. Ný stjórn fyrirtækisins er skipuð fólki með faglega þekkingu og reynslu. Starfsfólk Orkuveitunnar býr yfir gríðarlegri þekkingu, reynslu og metnaði. Við byggjum þess vegna á traustum grunni og hlökkum til að geta gert allskonar í framtíðinni þegar rekstur Orkuveitunnar er komin á beinu brautina.

Gagnbókun um OR

Stjórnarformaður OR verður ekki starfandi hluti af framkvæmdastjórn fyrirtækisins einsog gefið er til kynna í bókun minnihlutans. Í  raun er furðulegt að minnihlutinn skuli nota það orðalag þvert á ábendingar og staðreyndir málsins. Hið rétta er að meirihlutinn hefur fengið þriggja manna teymi reynslumikils fagfólks til að leiða umfangsmikla endurskipulagningu á starfsemi og rekstri Orkuveitu Reykjavíkur með því að taka sæti í stjórn fyrirtækisins. Fyrst um sinn verður stjórnarformanni gert kleift að gera það í fullu starfi og munu launakjör hans taka mið af launum næstu undirmanna borgarstjórnans í Reykjavík.  Besti flokkurinn og Samfylkingin leggja áherslu á að um tímabundna ráðstöfun er að ræða. Hún er engu að síður nauðsynleg vegna umfangs þeirra brýnu og umfangsmiklu verkefna sem öllum ætti að vera ljóst að ráða þarf fram úr á næstu vikum og mánuðum.

Gagnbókun II um OR

Minnihlutinn vill vísa á hlutafélaga lög sem kveða á um að stjórnarformanni sé óheimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem formanns félagsstjórnar. Um það er ekki að ræða í þessu tilviki heldur er þvert á móti  það að stjórnarformanni verði gert kleift að sinna starfsskyldum sínum sem stjórnarformanns í fullu starfi, tímabundið. Annað er útúrsnúningur.