Horfur eru á að svipaður fjöldi leggi leið sína í Blá Lónið á þessu ári og kom á síðasta ári. Þá heimsóttu um það bil 400.000 manns Bláa Lónið sem er nú vinsælasti áfangastaður erlendra ferðamanna sem leggja leið sína híngað.

Að sögn Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins, hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim fjölda erlendra gesta sem heimsótt hafa Bláa Lónið  og Blue Lagoon verslanirnar í nóvember en 3% fjölgun baðgesta varð miðað við sama tíma á síðasta ári. „Þetta er besti nóvembermánuður Bláa Lónsins frá upphafi,“ segir Grímur.

,,Það er ekki spurning að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað miðað við árstíma eins og fólk á suðvesturhorninu hefur fundið fyrir. Það er ljóst að hagstætt gengi krónunnar dregur fólk hingað og það er að eyða meiri peningum en áður mælt í íslenskum krónum.”

Grímur sagði að rekstur Bláa Lónsins og Hreyfingar gengi vel og þeir sæju fram á 25% tekjuvöxt á milli ára.