Tölvuleikjaframleiðandinn CCP, stafræna auglýsingastofan Sahara og málningavöruverslunin Flugger eru í efstu þremur sætunum sem bestu vinnustaðir Íslands hjá Great Place to Work (GPTW). Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Síðustu tvö ár hafa verið alvöru próf á þrautseigju en þau gildi sem aðgreindu bestu vinnustaði Íslands frá öðrum gerðu þeim kleift að sigla lygnan sjó. COVID-19 kann að hafa endurskilgreint vinnumenningu okkar en traust er eftir sem áður hornsteinn árangursdrifinna fyrirtækjai,“ segir Benedict Gautrey, framkvæmdastjóri hjá GPTW, í tilkynningunni.

GPTW er alþjóðleg stofnun um vinnustaðamenningu og hóf starfsemi hér á landi á síðasta ári. Til þess að setja viðmið um traust og greina líðan fólks notar stofnunin gögn og þekkingu frá meira en 10.000 fyrirtækjum.

„Við vonum að viðurkenning til þessara fyrirtækja fyrir að hafa skapað frábæra vinnustaði fyrir allt starfsfólk muni veita öðrum fyrirtækjum á Íslandi innblástur til að slást í hóp rúmlega 10 þúsund fyrirtækja í heiminum sem hafa einsett sér að setja starfsfólkið í fyrsta sæti.

Öll fyrirtæki með yfir 10 starfsmenn eru gjaldgeng til þess að fá viðurkenningu og það besta við þessar viðurkenningar er að þær eru algjörlega háðar endurgjöf starfsfólks. Það er einfaldlega starfsfólkið sem sker úr um hvort fyrirtæki er frábær vinnustaður. Við erum mjög spennt yfir þessum fyrsta lista yfir Bestu vinnustaði Íslands og hlökkum til að starfa með mörgum fleiri framúrskarandi fyrirtækjum á árinu,“ segir Gautrey í tilkynningunni.