Við matvörubúð stendur í Peking stendur grannvaxinn maður að nafni Zhao Shenji og betlar vegfarendur um að láta af hendi smáræði til að framfleyta sér. Hann hefur meðferðis veggspjald en á því stendur: „Mæli með því að nota WeChat Pay.“

Þannig hefst frétt á vef The Wall Street Journal sem fjallar um uppgang snjallsímagreiðsla í Kína en WeChat er einn vinsælasti samfélagsmiðillinn þarlendis og er ört að skipa sér stærri sess í greiðslukerfi landsins. Í höfuðborginni og mörgum öðrum borgum er ekki óalgengt að sjá smærri og stærri verslanir bjóða upp á greiðslu með snjallsímaforritum, einna helst WeChat. Wall Street Journal gengur svo langt að segja að reiðufjárlausa samfélagið hafi birst, það sé hins vegar statt í Kína.

Í Bandaríkjunum námu greiðslur í gegnum snjallsíma 112 milljörðum dala á árinu 2016 en það en sú upphæð er smánuð í samanburði við umfang snjallsímagreiðsla í Kína þar sem þær námu 9.000 milljörðum dala á sama ári. Slíkar greiðslur hafa farið ört vaxandi þar í landi en árið 2015 voru fóru um 2.000 milljarðar í gegnum snjallsíma og um 1.000 milljarðar árið 2014.

Talið er að nálægt 500 milljónum manns noti snjallsíma reglulega til þess að greiða fyrir vörur og þjónustu í Kína en þeim hefur einnig fjölgað mikið á síðustu árum. Að baki þróuninni eru risar á borð við Alibaba og Tencent sem eru smám saman að ýta hefðbundnum fjármálastofnunum til hliðar og taka sér stærra hlutverk í daglegum viðskiptum almennings.