*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 25. maí 2017 16:01

Betra að fara út í sterkari krónu

Stærstu lífeyrissjóðir landsins segja fullt afnám fjármagnshafta fyrst og fremst fela í sér aukinn sveigjanleika.

Alexander F. Einarsson
Haukur Hafsteinsson er framkvæmdastjóri LSR.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Lífeyrissjóðirnir flýta sér hægt í auknar erlendar fjárfestingar í kjölfar fulls afnáms fjármagnshafta fyrir rúmum tveimur mánuðum. Eftir að höftin voru sett í kjölfar hrunsins fengu lífeyrissjóðirnir engar heimildir til nýfjárfestinga erlendis þar til á miðju ári 2015, er þeir fengu 10 milljarða króna skammtíma undanþágu frá höftum. Áfram var bætt við þessar heimildir eftir því sem staða þjóðarbúsins batnaði, en misjafnt var eftir sjóðum hvort þeir nýttu allar heimildir sínar. Í lok árs 2016 fengu lífeyrissjóðirnir 100 milljarða króna erlenda fjárfestingarheimild frá Seðlabankanum fyrir þetta ár áður en höftin voru afnumin.

Miðað við nýjustu tölur Seðlabanka Íslands frá því í lok mars eru heildareignir lífeyrissjóðanna um 3.637 milljarðar króna. Hlutfall erlendra eigna hjá lífeyrissjóðunum nema nú 22,6% af heildareignum, en þær jukust um 53 milljarða króna á milli mánaða. Taka þarf tillit til þess að gengi krónunnar hefur styrkst gríðarlega undanfarið eitt og hálft ár og vinnur styrkingin til lækkunar hlutfallsins jafnvel þó að sjóðirnir fjárfesti í auknum mæli erlendis.

Ætla að stórauka hlutfallið í A-deild

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, segir helstu breytinguna eftir fullt afnám hafta felast í því að nú sé hægt að gera langtímaáætlanir. Veittar hafi verið nokkuð rúmar heimildir á síðasta ári.

„Við horfum til þess að auka hlutfall erlendra fjárfestinga af heildar­ áætlunum en við lítum á það sem langtímaplan. Þetta verður gert jafnt og þétt,“ segir Haukur. Hjá LSR eru tvær mismunandi deildir, A-deild og B-deild, og samsetning þeirra sjóða er afar mismunandi. Í B-deildinni, sem er eldri, eru lífeyrisgreiðslur verulega umfram ið­gjaldatekjur. Þannig hefur LSR selt eignir í hverjum mánuði til að eiga fyrir greiðslunum. Þar er hlutfall erlendra eigna 39,8% eftir að hafa verið 41% um áramótin. Í A-deildinni, sem er yngri deildin, er hlutfallið talsvert lægra, en það var um 18% í ársbyrjun.

„Það kemur til vegna þess að innstreymi í sjóðinn hefur verið mikið, þannig að í sjóðinn flæðir mikið af íslenskum krónum sem við höfum einungis fengið heimildir til að fjárfesta erlendis að takmörkuðu leyti seinni árin. Þar erum við að horfa á verulega aukningu á næstu árum,“ segir Haukur. Hlutfallið er nú 21% og ljóst að aukningin er hafin hjá sjóðnum. Haukur segir að styrking krónunnar geri það ekki að verkum að LSR haldi að sér höndum þegar kemur að erlendum fjárfestingum. Um langtímaplan sé að ræða til að auka áhættudreifingu í eignasafninu.

„Að auki er betra að fara út í sterkari krónu því þá færðu fleiri dollara eða evrur fyrir hverja krónu. Sterk króna er alls ekki slæmur tími til að kaupa gjaldeyri,“ segir Haukur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.