Wow air var tekið til gjaldþrotaskipta í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudaginn. Um morguninn þann dag var rekstri félagsins hætt eftir að útséð var að ekki tækist að fá aukið fé í reksturinn.

Í drögum að kynningu á endurskipulagningu Wow air , sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, kemur ýmislegt fróðlegt fram. Árið 2018 var EBITDAR (afkoma að teknu tilliti til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og leigugreiðslna) neikvætt um 20,2 milljónir dollara eða tæplega 2,5 milljarða króna. Samkvæmt kynningunni var gert ráð fyrir því að í lok yfirstandandi árs yrði EBITDAR orðið jákvætt um 45,8 milljónir dollara og í lok árs 2021 jákvætt um 145,8 milljónir dollara, sem eru tæplega 18 milljarðar króna.

Óhætt er að segja að gert hafi verið ráð fyrir fullkomnum viðsnúningi í rekstri félagsins. Á síðasta ári nam rekstrartap ( EBIT ) 179 milljónum dollara eða tæplega 21,8 milljörðum króna. Samkvæmt kynningunni var gert ráð fyrir 9,9 milljóna dollara tapi á þessu ári en síðan átti félagið að fara á flug því árið 2020 var gert ráð fyrir 20,6 milljón dollara rekstrarhagnaði og árið 2021 átti rekstrarhagnaðurinn að nema 72,3 milljónum dollara eða 8,8 milljörðum króna. Þess má geta að árið 2016, sem er besta rekstrarár Wow , var rekstrarhagnaðurinn 30 milljónir dollara.

Í viðskiptáætluninni var gert ráð fyrir að gengi krónunnar sem og olíuverð héldist óbreytt. Auk þess var því spáð að félagið næði talsverðum ábata með því að auka sölu í gegnum netið úr 67% seldra miða í fyrra í 89% eftir tvö ár. Þá stefndi Wow á að auka hliðartekjur sínar á hvern farþega um 30% frá árinu 2018 til 2021, og áttu þær að nema 71 dollara á hvern farþega, miðað við 55 dollara á síðasta ári. Stefnt var að því að stækka flugflotann á næstu árum. Þegar félagið fór í þrot er var það með 11 vélar en árið 2021 var stefnt að því að vélarnar yrðu 16 talsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .