Bjartsýni ríkir um rekstur Marks & Spencer. Smásalan hefur tekið mjög við sér og hefur ekki verið betri í tvö ár, segir í Financial Times. Stuart Rose, framkvæmdastjóri smásölukeðjunnar, segir að verslun sé enn erfið en sölutölurnar væru góður meðbyr inn í jólavertíðina og því væri hann bjartsýnn.

Hlutabréf í fyrirtækinu hafa hækkað þó nokkuð upp á síðkastið en orðrómur hefur verið uppi um að stjórnendur ætli að kaupa fyrirtækið. Bréf Marks & Spencer hækkuðu mest allra bréfa á hlutabréfamarkaði í London í gær, eða um 13,25 pens og stóðu í 397,25 pens. Gengi þeirra hefur ekki verið svo hátt í þrjú ár.

Heildarsalan í Bretlandi var 3,3% hærri en á fyrri ársfjórðungi. Langmesta aukningin var í smásölu sem ekki tengdist matvöru. Á fyrri ársfjórðungi hafði salan minnkað um 11,2% en núna hafði hún náð sér á strik og var aðeins 0,2% minni. Sala á fatnaði tók geysilega við sér, haust og vetrarlína Marks & Spencer er mikill sölusmellur en fyrirsæturnar Twiggy og Erin O'Connor eru í auglýsingum fyrirtækisins.

Heildarmatvörusalan jókst aftur á móti um 6,3%.

Marks & Spencer sögðu að áætlaður hagnaður fyrir skatta á þessum árshelmingi yrði 26-33 milljarðar kr. Líklega nærri efri mörkunum. Framkvæmdastjóri Marks & Spencer lét hafa eftir sér að gengi fyrirtækisins væri stöðugt, miðað við slakt gengi annarra fyrirtækja á breskum smásölumarkaði. Ljóst væri að fyrirtækið hefði tekið viðskipti frá keppinautum sínum.