FL Group birti uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung 2005 sem og árið í heild eins og áður hefur komið fram í frétt á heimasíðu Viðskiptablaðsins.

Niðurstaða uppgjörsins er nokkru betri en væntingar greiningardeildar Kaupþings banka gerðu ráð fyrir.

Heildartekjur FL Group á fjórðungnum námu um 24,7 milljörðum en þar af voru tekjur af rekstri félagsins 10,8 milljarðar króna, sem er um milljarði umfram það sem spá greiningardeildar Kaupþings banka gerði ráð fyrir.

Hagnaður félagsins eftir skatta var 10,7 milljarðar á fjórðungnum og er það 1 milljarði. betra en spá greiningardeildar gerði ráð fyrir en hún hljóðaði upp á 9,7 milljarða. í hagnað eftir skatta.

Fjárfestingartekjur félagsins á fjórðungnum námu 13,9 milljörðum króna sem er í takt við spá bankans.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var neikvæður um 396 milljónir samanborið við spá um neikvæðar 620 milljónir á fjórðungnum. Niðurstaðan er því lítillega betri en greiningardeildin gerði ráð fyrir.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var aftur á móti lakari en spá greiningardeildar gerði ráð fyrir. Félagið tapaði þar 1,4 milljarði samanborið við spá greiningardeildar um tap upp á 1,1 milljarð.