Horft hefur verið til tveggja kosta við byggingu nýs Laugardalsvallar. Annars vegar opins leikvangs sem tæki 17.500 manns í sæti sem næðu hringinn í kringum völlinn. Búist er við að hann kosti 7 til 11 milljarða króna í byggingu. Hinn kosturinn væri að byggja leikvang með opnanlegu þaki og sætum fyrir um 20 þúsund manns, en sá kostur gæti kostað frá 11 milljörðum og upp í 18 milljarða króna. Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir að hlaupabrautin og frjálsíþróttaaðstaða sem nú er við völlinn fari. Laugardalsvöllur tekur í dag um 9.800 manns í sæti.

Samkvæmt rekstraráætlun KPMG sem byggð var á fyrri áætlunum Lagardere Sports var ráðgert að afgangur af rekstri fyrir fjármagnsliði, skatta, afskriftir og fyrir leigugreiðslur (EBITDAR) opna leikvangsins yrði um 38 milljónir króna og um 66 milljónir króna á ári af fjölnota leikvanginum. Laugardalsvöllur er í dag rekinn með tapi og greiðir Reykjavíkurborgar um 50 milljónir árlega með rekstri vallarins.

Meðal þess sem horft er til við rekstur nýs leikvangs er útleiga vegna ýmissa viðburða. Gangi þau áform ekki eftiir og útleigu nýs leikfangs verði nær alfarið hætt áætlar KPMG að 8 milljóna króna rekstrartap verði á fjölnotaleikvanginum á ári. Þar er ráðgert að tekjur af viðburðahaldi lækki úr 203 milljónum króna á ári í 5 milljónir og þar með tekjur af rekstri leikvangsins alls úr 742 milljónum króna í 473 milljónir króna. Á móti lækki annar kostnaður um 195 milljónir króna til að mynda þar sem stöðugildum við rekstur leikvangsins verði fækkað úr tólf í sex

Hins vegar mun rekstrarhagnaður opna leikvangsins aukast úr 36 í 59 milljónir króna miðað við sömu forsendur. KPMG bendir á að þetta kunni að vera vegna þess að rekstraráætlunin er aðlöguð frá rekstraráætlun Lagardere Sports. Sú ætlun virðist hafa verið unnin í nokkrum flýti og byggi á rekstraráætlun fjölnota leikvangsins. Þetta sé meðal þess sem rýna þurfi nánar áður en ákvörðun um byggingu nýs leikvangs verði tekin.

Þá bendir KPMG á að Lagardere Sports kunni að hafa hagsmuni af því að af byggingu nýs leikvangs verði þar sem fyrirtækið kunni að sækjast eftir því að sjá um rekstur leikvangsins.

Guns N’ Roses ákveðinn prófsteinn

Nýr og stærri leikvangur myndi engu síður gera mögulegt að halda stærri tónleika en hægt hefur verið hér á landi, fyrir allt að 30 þúsund gesti. Bandaríska rokksveitin Guns N Roses mun spila á Laugardalsvelli í sumar og hafa skipuleggjendur tónleikanna haft orð á því að þeir geti verið nokkurs konar prófsteinn fyrir byggingu nýs leikvangs. Hins vegar má benda á að rekstur af tónleikahaldi hér á landi hefur verið þungur undanfarin misseri. Tugmilljóna tap var síðustu ár af tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves. Þá hafa skipuleggjendur tónleika haft orð á offramboði á markaðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .