Þegar McDonalds yfirgaf landið í kreppunni voru viðbrögð landsmanna blendin. Til voru þeir sem fögnuðu því að áhrif bandarískrar lágmenningar á þá íslensku myndu í kjölfarið minnka, en einnig voru margir sem grétu brotthvarf McDonalds, enda var staðurinn í raun orðinn rótgróinn í hugum margra Íslendinga áður en hann kom til landsins.

Á rústum McDonalds reis þó nýr staður í eigu sömu eigenda og hlaut hann nafnið Metro. Matseðilinn er furðulega líkur matseðli McDonalds og um tíma þótti nýi staðurinn ekki nógu svalur, heldur lélegt ljósrit af forveranum. Síðan þá hefur eitthvað breyst, hvort það er staðurinn sjálfur eða ímynd hans. Þegar farið er á Metro-staðinn í Skeifunni er alltaf nóg að gera. Afgreiðslufólkið er vingjarnlegt og hjálplegt og hreinlæti á staðnum er til fyrirmyndar. Hvað varðar matinn sjálfan lendir maður í ákveðinni klípu. Á að bera ostborgarana saman við borgarana sem maður fær á American Style eða Búllunni? Ef það er gert þá tapar Metro.

En hvernig stenst íslenski staðurinn samanburðinn við hamborgarana á McDonalds í Bandaríkjunum? Í nýlegri utanlandsferð gerði ég mér ferð á McDonalds til að smakka ostborgarann þar og svei mér ef borgararnir á Metro eru ekki betri. Frönsku kartöflurnar eru svo með þeim bestu í bænum.