*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 9. nóvember 2019 17:02

Betri gangur hjá Brynju

Verslunin Brynja á Laugavegi hagnaðist um 2,6 milljónir króna á síðasta ári eftir 230 þúsund króna tap árið áður.

Ritstjórn
Brynjólfur H. Björnsson er framkvæmdastjóri og stærsti eigandi verslunarinnar Brynju á Laugavegi.
Haraldur Jónasson

Viðsnúningur var í rekstri verslunarinnar Brynju á Laugavegi á síðasta ári, þegar félagið fór úr 230 þúsund króna tapi í 2,6 milljóna króna hagnað. Tekjur félagsins jukust um rúm 6%, úr 97,5 milljónum í 103,4 milljónir en rekstrargjöldin jukust um 3,1%, úr 99,2 milljónum í 102,3 milljónir króna.

Athygli vekur þó að launaútgjöldin jukust um tæplega 16%, úr 38,9 milljónum í 45,1 milljón króna. Á sama tíma dróst kostnaðarverð seldra vara saman um 4,9%, úr 45,1 milljón í 42,9 milljónir króna.

Eigið fé félagsins jókst um 4%, úr 64,5 milljónum í 67,1 milljón króna, meðan skuldirnar jukust minna, eða um 2,9%, úr 9,4 milljónum í 9,7 milljónir króna. Þar með jukust eignir verslunarinnar um 3,8% á árinu, úr 73,9 milljónum króna í 76,8 milljónir, meðan eiginfjárhlutfallið stóð nánast í stað og var 87,4%.

Framkvæmdastjórinn Brynjólfur H. Björnsson er jafnframt eigandi 95% hlutar, en Ragna L. Ragnarsdóttir á 3% og Matthildur Brynjólfsdóttir á 2%. Saman eru þau í stjórn félagsins sem hefur ákveðið að greiða ekki út arð á árinu.