Hagvaxtarhorfur á evrusvæðinu eru nú töluvert betri en áður vegna lækkandi olíuverðs, veikari evru og örvunaraðgerða Seðlabanka Evrópu, samkvæmt nýrri greiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. BBC News greinir frá þessu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að hagvöxtur á þessu ári muni mælast 1,5% á svæðinu, en hann muni hins vegar verða meiri á því næsta og mælast 1,7%. Segir í spá bankans að þetta kunni að koma evruríkjunum út úr þeirri stöðnun sem einkennt hefur evrusvæðið undanfarið.

Nokkrir óvissuþættir eru hins vegar í greiningu sjóðsins og ber þar hæst staðan í Grikklandi. Segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að ekki sé hægt að útiloka áframhaldandi óstöðugleika í landinu þrátt fyrir að útlit sé fyrir samkomulag milli grískra stjórnvalda og alþjóðlegra lánveitenda.

Þá kemur fram í spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að verðbólga verði nálægt núlli út árið 2015, en muni nema 1,1% á næsta ári.