Viðskiptablaðið hélt á fimmtudaginn áfram umfjöllun sinni um teymin sem komust í úrslit frumkvöðlakeppninnar Gulleggsins. Alls komust tíu teymi í úrslit. Þegar hefur verið fjallað um fimm þeirra en hér er síðari hluti umfjöllunarinnar. Úrslit keppninnar ráðast í dag og hlýtur verðlaunahafinn meðal annars 1,5 milljónir króna.

Áfram halda tæknihugmyndir að vera áberandi í Gullegginu en teymið Reminiscence Squared eða RSQ er eitt af þeim sem eru í úrslitum. Verkefnið leiða þeir Hörður Guðmundsson og Jón Sveinbjörn Halldórsson. Eftir að hafa keppt í alþjóðlegri fjármálakeppni í Toronto , fengið reynslu af störfum í fjármálageiranum, og að marinerað sig í fjármálafræðum á háskólastigi, fengu þeir hugmyndina að RSQ . Umrædd lausn á að sjálfvirknivæða ákveðna greiningarferla og þá sér í lagi greiningar sem snúa að eignasöfnum markaðsaðila. Undirstaðan snýr að þáttagreiningu, sem á að auðvelda markaðsaðilum að skilja hver uppspretta ávöxtunarinnar er og hvaða þætti megi líta til þess að auka ávöxtun eignasafnsins.

Önnur tæknihugmynd kom frá teyminu Statum sem hefur tekist að hanna gagnvirkan dómsal í sýndarveruleika til þess að undirbúa þolendur kynferðisofbeldis að mæta fyrir dóm. Teymismeðlimir vildu nýta tækni sýndarveruleika til þess að hjálpa fólki í lokaverkefninu sínu í Háskólanum í Reykjavík og þaðan kom hugmyndin. Sýndarveruleikinn er eftirlíking af dómsal þar sem þolendur kynferðisofbeldis geta upplifað raunverulegar aðstæður meðal annars viðbrögð sýndarvera eins og saksóknara, dómara og meints geranda. Teymismeðlimir telja hugmyndina geta minnkað kvíða þolenda en sálfræðideildin í Háskólanum í Reykjavík hyggst hefja rannsókn á áhrifum hugmyndarinnar í janúar. Hugmyndin er ekki enn aðgengileg en meðlimir hópsins telja samtök eins og Stígamót vera kjörinn stað til þess að bjóða upp á þjónustuna.

Fórnar stöðugum tekjum

Teymið Örmælir telur að vísindamenn eyði of miklum tíma í vökvamælingar í ákveðnum tilraunum og eru því að hanna mælitæki sem mælir agnarsmátt vökvarúmmál í tilraunaglösum snertilaust. Með þeirri þróun eiga rannsóknarstofur að geta sparað sér vinnu, efniskostnað og fjármuni. Teymismeðlimirnir eru þau Sunna Björg Skarphéðinsdóttir vísindamaður, Andri Björn Eiðsson verkfræðingur, og Einir Guðlaugsson verkfræðingur. Verkefnið er aðalstarf Sunnu, sem áður vann hjá Landspítalanum, og Andra sem stundaði nám hjá Háskólanum í Reykjavík. Félagið lifir nú að mestu leyti á styrkjum meðal annars frá Atvinnumálum kvenna, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og VÍS. Stefnt er að því að selja fyrsta tækið fyrir árslok 2021.

Lemon nýtur góðs af GreenBytes

Enn ein tæknihugmyndin kemur frá teyminu GreenBytes sem hefur hannað hugbúnað sem á að aðstoða veitingastaði að áætla matarinnkaup. Hugbúnaðurinn vinnur úr sölugögnum hvers fyrirtækis og á með því að geta áætlað nákvæmlega hvað þurfi að kaupa mikið inn fyrir næstu daga. Að sögn teymismeðlima eru enn fá fyrirtæki á Íslandi sem greina sölugögnin sín að þessu leyti og lausn GreenBytes því tilvalin. Með henni ætti að vera hægt að minnka matarsóun og þar af leiðandi að auka hagnað. Enn er verið að betrumbæta hugmyndina en meðal fyrirtækja sem hafa nú þegar nýtt sér þjónustuna er matsölustaðurinn Lemon .

Teymið Tré lífsins, sem reynir að ná utan um starfsemi sína með orðunum þín saga, þitt tré, okkar minning, ætlar sér að bjóða upp á nútímalegri nálgun á andláti. Einn liður í því er að setja upp persónulegan gagnagrunn þar sem hægt verður að skrá niður hluti eins og erfðamál, helstu óskir eftir andlát og sögur af eigin lífi. Hver og einn myndi síðan ráða hver fengi aðgang að þeim upplýsingum eftir andlát. Þessi leið ætti að tryggja að valfrelsi einstaklingsins sé virt og auðvelda það að halda utan um minningar. Auk þess vill teymið gera minningargarða þar sem tré verður plantað með ösku hvers einstaklings. Tréð verður síðan merkt með nafni hins látna og hægt verður að nálgast minningarsíðu um sá hinn sama í gegnum QR kóða. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um verkefnið á heimasíðu teymisins, trelifsins.is .

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér.