Íslandsbanki býður nú viðskiptavinum sínum nýja tegund húsnæðislána, svokölluð Græn húsnæðislán. Viðskiptavinir geta með grænum húsnæðislánum fengið hagstæðari kjör við fjármögnun á vistvænu húsnæði sem hlotið hefur viðurkennda umhverfisvottun.

Í tilkynningu Íslandsbanka kemur fram að Græn húsnæðislán falli undir sjálfbæran fjármálaramma Íslandsbanka og endurspegli þá áherslu bankans að bjóða upp á grænar vörur sem hvort í senn nýtast viðskiptavinum og hafa jákvæð umhverfis- og samfélagsleg áhrif.

Þá kemur fram að ekkert lántökugjald sé innheimt vegna grænna húsnæðislána auk þess sem Íslandsbanki veiti vaxtaafslátt af húsnæðislánakjörum ef eign er vistvottuð. Vistvottun feli meðal annars í sér Svansvottun eða BREEAM - Very good vottun.

Bent er á að fjöldi vistvottaðs húsnæðis hér á landi hafi aukist á undanförnum árum og gerir bankinn ráð fyrir að þeim fjölgi enn frekar samhliða áherslum á sjálfbærni í samfélaginu.

Þeir viðskiptavinir sem þegar eru með áhvílandi lán frá bankanum á vistvottaðri eign geta haft samband við bankann og sótt um vaxtaafslátt.

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs Íslandsbanka:

„Íslandsbanki hefur sett sér það markmið að veita ávallt bestu bankaþjónustu á markaði og vera hreyfiafl til góðra verka.  Að stuðla að fjölgun vistvænna fasteigna, sem byggðar eru á hringrásarhönnun, er eitt af þeim stóru skrefum sem við getum tekið í átt að betri framtíð. Með því að veita vistvæn húsnæðislán án lántökugjalda og á hagstæðari vaxtakjörum leggur Íslandsbanki lóð sitt á vogaskálina í þeim tilgangi að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið. Viðskiptavinir okkar hafa tekið vel í þær grænu fjármálalausnir sem við höfum boðið upp á og við væntum þess að græn húsnæðislán hljóti sömu móttökur."