*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 13. maí 2018 10:30

Betri nýting WOW, verri hjá Icelandair

Í frétt á vef Túrista er farið yfir áhrif hækkandi fargjöld á sætanýtingu Icelandair og WOW air, en áhrifin eru mjög mismunandi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í frétt á vef Túrista er farið yfir áhrif hækkandi fargjöld á sætanýtingu Icelandair og WOW air, en áhrifin eru mjög mismunandi. Í fréttinni segir meðal annars: „Í uppgjöri Icelandair, fyrir fyrsta ársfjórðung, kom fram að meðalverð hefðu hækkað en á sama tíma hefur sætanýtingin farið lækkandi. Sérstaklega í nýliðnum apríl eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Skýringuna á þeirri þróun mun meðal annars vera að finna í verðlagningunni samkvæmt Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair,“ en í frétt Túrista segir Guðjón að félagið haf ekki farið í verðstríð af fullum þunga til þess eins að halda í markaðshlutdeild.

Í fréttinni er greint frá að hlutirnir hafi þróast með öðrum hætti hjá WOW air. Þar hafi fargjöld hækkað og sætanýtingin líka, öfugt við það sem gerst hefur hjá Icelandair. „WOW air hefur séð hækkun á meðalfargjöldum það sem af er þessu ári. Í apríl hækkuðu meðalfargjöld lítillega, en tímasetning á páskum í samanburði við árið í fyrra hefur áhrif á samanburð á milli ára,” segir Svanhvít Friðriksdóttir í samtali við Túrista, en Svanhvít er upplýsingafulltrúi WOW air.