„Það eru talsvert betri skil nú en í fyrra og líklega færri sem fá á sig áætlun,“ segir Karl Óskar Magnússon, sérfræðingur hjá Ríkisskattstjóra. Síðasti dagur til að skila framtölum einstaklinga er í dag. Framteljendur eru um 267 þúsund og hafa 106.700 skilað framtölum sínum. Sótt hafa um frest til að skila 30.500 framteljendur. Frestur er allajafna gefinn fram að mánaðamótum.

Á sama tíma í fyrra höfðu 98.800 skilað skattframtölum sínum eða 7.900 færri en nú. Framteljendur voru nokkuð færri í fyrra en nú eða 262 þúsund talsins.

Karl Óskar segir að þótt frestur til að skila framtölum renni út á miðnætti þá verði enn hægt að sækja um skilafrest á netinu til mánaðamóta. Hann leggur áherslu á að starfsfólk ríkisskattstjóra geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hjálpa framteljendum, meira að segja hafi framtöl verið bakfærð fyrir þá sem telja sig hafa skilað óvart á netinu. Þeir sem ekki hafa skilað framtölum sínum í júní fá hins vegar á sig áætlun.